Síðastliðinn laugardag var Ljóðstafur Jóns úr Vör veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Ljóðasamkeppnin er haldin ár hvert af Kópavogsbæ og er öllum frjálst að senda inn frumsamin íslensk ljóð undir dulnefni en alls bárust 230 ljóð í keppnina í ár. Verðlaunaskáldið fær silfurskreyttan göngustaf Jóns úr Vör til varðveislu í eitt ár auk peningaverðlauna.
Sigurvegari í keppninni og því handhafi Ljóðstafsins þetta árið var Sunna Dís Másdóttir fyrir ljóðið Á eftir þegar þú ert búin að deyja. Önnur verðlaun hlaut Solveig Thoroddsen og þriðja sætið hreppti Helga Ferdinandsdóttir. Sjö ljóð hlutu svo sérstaka viðurkenningu dómnefndar en í þeim hópi var ljóðið Skuggasveinn eftir Borgnesinginn Theodór Kristinn Þórðarson. Teddi er fyrrum yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, fjölmiðlamaður og leikari með meiru. Dómnefnd keppninnar skipuðu þau Kristín Svava Tómasdóttir, Anton Helgi Jónsson og Þórdís Helgadóttir.