Það var venju fremur góð stemning á Mannamóti landshlutanna, sem haldið var í Kórnum í Kópavogi síðastliðinn fimmtudag. Mannamóti var aflýst 2021 en á síðasta ári var það í marsmánuði og fámennara en venjulega sökum Covid-19. Það eru markaðsstofur landshlutanna sem standa fyrir Mannamóti, en þangað er m.a. boðið starfsfólki ferðaskrifstofa, hótela, ráðamanna, fjölmiðla og annarra sem vilja kynna sér það sem efst er á baugi og nýjungar á vettvangi ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Að þessu sinni voru það fulltrúar 230 fyrirtækja í ferðaþjónustu sem kynntu starfsemi sína. Af þeim voru 37 frá Vesturlandi, sem er nánast helmingi betri þátttaka en í mars á síðasta ári. Mannamót eru góður vettvangur til að mynda tengsl, ræða við gesti og þá ekki síður samstarfsfólk í greininni. Jafnvel nágranna sem hafa sömu hagsmuni; að taka á móti ferðafólki og veita sem besta þjónustu í heimabyggð. Síðast en ekki síst er Mannamót vettvangur til að stofna til viðskipta. Ný fyrirtæki voru nokkur á Mannamóti að þessu sinni. Héðan af Vesturlandi mátti m.a. sjá fulltrúa Dalahótels á Laugum í Sælingsdal, Basalt hótels í Lundarreykjadal, sveitaseturs í Efra Nesi og fleiri sem ekki hafa tekið þátt áður. Þá er starfsemin í Hvammsvík í Kjós í samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands. Svo voru aðrir sem ætíð hafa mætt og standa þannig sína plikt í að kynna landshlutann. Loks var sýnilegt að nýtt starfsfólk hefur tekið við trúnaðarstörfum í ýmsum ferðaþjónustufyrirtækjum og var að stíga sín fyrstu skref á Mannamóti að þessu sinni. Blaðamaður Skessuhorns leit við í vestlensku básunum á sýningunni. Í Skessuhorni sem kemur út í fyrramálið eru myndir sem teknar voru við það tækifæri. Af spjalli við ferðaþjóna kom fram að hjá sumum hefur traffík ferðafólks verið góð í vetur, en hjá öðrum minni. Allir sem blaðamaður ræddi við sögðu að bókanir fyrir næsta sumar litu vel út. Fólk var því almennt bjartsýnt og ekki síður þakklátt fyrir að hægt var að halda Mannamót með hefðbundnu sniði að nýju.