Foreldrar ungbarna og tilvonandi foreldrar geta nú andað örlítið léttar en áður. Domus barnalæknar hafa skipulagt sérstaka þjónustu fyrir óvær ungbörn, þ.e. ungbörn sem gráta mikið og gætu haft ungbarnakveisu. Þetta kemur fram á vef Domus barnalækna. „Ungbarnakveisa lýsir sér með endurteknum og langdregnum grátköstum á fyrstu vikum og mánuðum ævinnar sem foreldrar geta ekki með nokkru móti komið í veg fyrir eða stöðvað. Einkenni eru nánast alltaf gengin yfir við 3 mánaða aldur og alltaf þegar 5-6 mánaða aldri er náð. Foreldrar lýsa því oft að grátur vegna kveisu sé allt öðruvísi en annar grátur sama barns,“ segir á vef Domus barnalækna.
Ef ungbarn er óvært og grætur mikið er nú hægt að hringja í síma 563-1010 og óska eftir tíma hjá barnalækni sem sinnir óværum ungbörnum en áhersla er lögð á að biðtími vegna þessarar þjónustu sé ekki lengri en 2-4 dagar.
Ungbarnakveisa er greind hjá barni eftir að læknir er þess fullviss að ekkert annað amar að því. Til er mjög góð meðferð við ungbarnakveisu sem byggir meðal annars á mataræðisbreytingum og í sumum tilvikum lyfjameðferð, segir á vef.