Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 6. janúar síðastliðinn var ný tillaga lögð fram um breytingu á aðalskipulagi. Snertir hún legu þjóðvegar nr. 1 í gegnum Borgarnes. Nýja tillagan, sem kölluð er leið fimm, gerir ráð fyrir að veglínan verði færð utar á leirurnar framan við byggðina. Með breyttri legu þjóðvegar um Borgarnes verður í senn dregið úr slysahættu svo sem við inn- og útakstur frá bensínstöðvum. Þá er núverandi veglína um Borgarnesi almennt þyrnir í augum þeirra sem leið eiga um hringveginn og stundum kölluð lengsta hraðahindrun landsins. Með tillögu um nýja veglínu skapast rými fyrir skipulagningu stærra íbúðarsvæðis m.a. við Kveldúlfshöfða. Á þriðja tímabili Samgönguáætlunar fyrir 2020-2033 er gert ráð fyrir að veitt verði tveimur milljörðum króna í framkvæmdina við Borgarnes.
Í fundargerð skipulagsnefndar segir: ,,Gerð verður breyting á þéttbýlishluta Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010- 2022. Um er að ræða breytta legu Hringvegar um Borgarnes og skilgreint nýtt íbúðarsvæði Í13. Um leið verður þéttbýlisuppdráttur stækkaður til samræmis við breytta legu þjóðvegar. Markmið breytinga á aðalskipulaginu er að skilgreina nýtt íbúðarsvæði Í13 þar sem hægt verði að koma fyrir um 20-25 íbúðum til viðbótar við núverandi svæði. Um leið er gerð breyting á þjóðvegi sem liggur utanvert við Borgarnes til að skapa meira rými fyrir stækkun á íbúðarsvæðinu og færa þjóðveginn fjær byggðinni til þess að tryggja góð loftgæði og hljóðvist við íbúðarbyggðina.“