Undanfarna mánuði hafa af og til borist kvartanir frá íbúum á Akranesi sem búa í nálægð við aðalvöll Knattspyrnufélags ÍA á Jaðarsbökkum. Kvartanirnar snúa að ljósaskilti sem er jafnframt vallarklukka á Akranesvelli. Telja nágrannar að of mikil birta komi frá ljósaskiltinu og valdi þeim miklu ónæði og komi jafnvel í veg fyrir nætursvefn. Við hliðina á Akraneshöllinni er einnig byggingakrani sem mikil birta er af þegar kvölda tekur og hafa einhverjir íbúar séð ástæðu til þess að kvarta einnig yfir því.
Skessuhorn heyrði í Páli Guðmundi Ásgeirssyni, verkefnastjóra Knattspyrnufélags ÍA, varðandi þetta mál og segir hann að nú í haust hafi þeir byrjað að vera með tilkynningar á vallarklukkunni. „Til að byrja með vorum við með gulan bakgrunn og svo spiluðum við myndband á skiltinu, en þá var mun meiri ljósmengun. Við fengum einhverjar kvartanir út af þessu, samt ekki beint til okkar heldur í gegnum Íþróttabandalagið. Við skiptum þá yfir í svartan bakgrunn og gerðum þetta mun látlausara og er mun minni ljósmengun núna. Síðan þá hef ég ekkert heyrt kvartað yfir þessu en það er spurning hvort að hægt sé að dempa ljósmagnið á skiltinu enn meira, ég þyrfti að kanna það,“ segir Páll í samtali við Skessuhorn.
Spurður af hverju kveikt sé á skiltinu allan sólarhringinn segir Páll að það þurfi að vera kveikt á skiltinu samkvæmt þjónustuaðila skiltisins til að það myndist ekki raki inn í því og það eyðileggist. „Áður en við fórum að vera með tilkynningar á skiltinu þá var klukka með ÍA merkinu sem logaði allan sólarhringinn. Það var örugglega svipuð ljósmengun af skiltinu en hún var örugglega stöðugri þar sem nú er ekki sama mynd allan tímann. Þannig að það er meira og minna búið að vera kveikt á skiltinu síðan það var sett upp enda fáum við auglýsingatekjur af því.“
Páll segir að lokum, hvað varðar byggingakranann, að komið hafi fyrir að gleymst hafi að slökkva ljósið á honum þegar framkvæmdir eru ekki í gangi og biðst hann velvirðingar á því.