Ferðabók Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna) í Landnámssetri
Söguloftið á Landnámssetri Íslands var þétt setið á frumsýningu Ferðabókar Gísla Einarssonar, nýrri uppistandssýningu Gísla sem byggir á ferðabók þeirra félaga Eggerts og Bjarna. Árið 1752 fengu Eggert og Bjarni sérstakan styrk frá danska ríkinu til að ferðast um Ísland í fimm ár, rannsaka náttúru þess og skrásetja aðstæður íbúa á hverjum stað fyrir sig. Gísli, sem haft hefur að atvinnu síðustu 20 ár að ferðast um landið og kynnast landanum, telur sig ekki síður vera hæfan til slíks verkefnis. Hann hafi í starfi sínu kynnst fólki og aðstæðum hvaðanæva á landinu og er nú tilbúinn að skrásetja hvað hann hefur séð og meðtekið á sínum ferðum.
Sýningin er því hugsuð sem e.k. uppfærsla eða endurbót á ferðabók Bjarna og Eggerts, og eru sérstaklega mannlífslýsingar þeirra teknar fyrir og endurbættar miðað við vitneskju Gísla og kynni hans af landanum.
Hvort maður er hrokafullur, ljúfmenni, letingi, tilfinningavera, montinn, hógvær eða góður með sig virðist einungis ráðast af heimahögum og eftir stendur að fólk úr uppsveitum er fallegra en fólk við sjávarsíðuna. Það skráðu Eggert og Bjarni og virðist Gísli standa og falla með þeirri fullyrðingu. Annars býr upp til hópa ágætis fólk um allt land, meira að segja á Suðurlandi!
Lundarfar, háttalag og holning íbúa hvers fjarðar og hrepps um land allt er krufið til mergjar, stundum stílfært og stundum ekki. Skemmtileg hringferð um landið á 100 mínútum.