Endurbætur hófust á N1 í Borgarnesi í desember en búið er að skipta út gólfefnum, ljósum og innréttingum. ,,Við erum að vinna í því að breyta öllu en það er að koma nýtt útlit á allar stöðvar N1,“ segir Magnús Fjeldsted verslunarstjóri í samtali við Skessuhorn. ,,Stefnan er að koma sjálfsafgreiðslukössum í notkun fyrir vorið. Svo erum við búin að opna aftur fyrir rafmagnshleðsluna og erum að fá öflugri hleðslustöðvar. Við vorum með tvær 100 vatta en munum nú fá tvær 200 vatta hleðslustöðvar á næstu misserum. Þá verður hægt að hlaða fjóra bíla í einu í stað tveggja,“ segir Magnús. Einnig er unnið í að bæta við sætafjölda og koma upp betri stofu. ,,Við erum að koma fyrir básum til að bæta við sætafjölda en erum einnig að útbúa betri stofu sem er hugsuð til þess að fólk í lengri stoppum, til dæmis þegar bíllinn er í hleðslu, geti borðað og slakað á,“ segir Magnús en breytingarnar munu standa yfir í um tvo mánuði til viðbótar.