Marel og Eðalfiskur hafa gert með sér samning um nýja heildarvinnslu til framleiðslu á laxi, sem felur í sér nýja kynslóð Marel laxaflökunarvélar, auk Curio hausunarvélar sem nýsköpunarteymi Marel mun þróa í samstarfi við Eðalfisk. Fréttablaðið greindi frá.
Vinnslulínan mun taka heilan, slægðan lax og skila beinhreinsuðum flökum sem eru tilbúin til ferskfiskpökkunar eða frekari vinnslu, á borð við bitavinnslu, reykingu og til að grafa eða frysta. Eðalfiskur hyggur á uppbyggingu og stóraukna framleiðslu í sérhæfðri laxavinnslu félagsins í Borgarnesi með þátttöku í fyrirhuguðum áformum um aukið laxeldi á Íslandi. Móðurfélag Eðalfisks, Eðalfang, lauk nýverið eins milljarðs króna fjármögnun sem nýta á að hluta til fjárfestinga í tækjabúnaði og sjálfvirknivæðingu sem liður í uppbyggingu og eflingu á vinnslu til framleiðslu á laxi. Rík áhersla er lögð á útflutning á fullunnum íslenskum laxaafurðum og að efla sölu- og markaðsstarf félagsins á alþjóðlegum mörkuðum. Framtíðarsýn Marel segir að fyrirtækið vilji umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu svo að matvæli verði framleidd á skilvirkari, hagkvæmari og sjálfbærari hátt og er samstarfið við Eðalfisk liður í því.
Ólafur Karl Sigurðarson, framkvæmdastjóri Marel Fish, segist stoltur af samkomulagi fyrirtækisins við Eðalfisk og að verkefnið sé spennandi skref í fyrirhugaðri uppbyggingu og aukningu á laxeldi- og vinnslu á Íslandi. Þá segir Andri Gunnarsson, stjórnarformaður Eðalfangs, í fréttinni að það sé sönn ánægja að ganga til samstarfs með Marel með kaupum á nýjustu kynslóð vélbúnaðar á heimsvísu fyrir hausun, flökun og snyrtingu á laxi og fjárfestingin sé fyrsti liður hjá Eðalfiski að tryggja áfram framúrskarandi gæði framleiðslunnar.