Jón Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins hf., er látinn 88 ára að aldri. Á starfsferli sínum var Jón m.a. fulltrúi í tveimur ráðuneytum, hagsýslustjóri og ráðuneytisstjóri. Þá var hann stjórnarmaður hjá Alþjóðabankanum áður en hann vatt kvæði sínu í kross. Íslenska járnblendifélagið var stofnað af íslenska ríkinu árið 1975 til að annast byggingu og rekstur kísiljárnsverksmiðju á Grundartanga. Jón tók við framkvæmdastjórastarfi félagsins árið 1977, en þá var bygging verksmiðjunnar enn í fullum gangi. Tveimur árum síðar hófst framleiðsla kísiljárns og stendur enn, nú í nafni Elkem Ísland. Jón átti eftir að gegna starfinu í hvorki meira né minna en tvo áratugi, eða fram til ársins 1997. Auk þessara starfa sat hann í fjölda nefnda og ráða og kom m.a. að ritun og endurskoðun laga og samninga. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Bergljót Jónatansdóttir. Þau eignuðust þrjú börn.
Sagan rifjuð upp
Vorið 2019 þegar fagnað var 40 ára afmæli Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga birtist ítarlegt viðtal við Jón Sigurðsson í Skessuhorni. Kristján Gauti Karlsson blaðamaður skráði og ræddi við hann um aðdragandann að byggingu verksmiðjunnar, góðu árin og þau mögru og sitthvað fleira frá fyrstu áratugum kísiljárnsframleiðslu á Grundartanga. Hér verður gripið niður í það:
„Vissi ekkert í minn haus þegar ég tók við starfinu“
„Aðdragandinn að byggingu Járnblendiverksmiðjunnar var sá að íslenska ríkið hafði samið við bandaríska fyrirtækið Union Carbide um að reisa slíka verksmiðju og eiga á móti ríkinu. Sá samningur var ein forsenda þess að ráðist var í Sigölduvirkjun á sínum tíma,“ segir Jón í samtali við Skessuhorn. „Þegar allar framkvæmdir voru komnar af stað fór ekki betur en svo að Union Carbide rifti samningnum. Hvers vegna veit ég ekki, en eftir stóð ríkið með þessa ráðagerð og stóra holu á verksmiðjusvæðinu á Grundartanga. Þá var leitað til Elkem í Noregi og samið við þá að mig minnir undir lok árs 1976,“ segir Jón.
Elkem var á þeim tíma sem nú stór framleiðandi kísiljárns og seldi bræðsluofna um allan heim. „Norðmennirnir lögðu til tækni og þekkingu við byggingu verksmiðjunnar á Grundartanga, hún er til dæmis mjög lík verksmiðju Elkem í Salten í Noregi,“ segir hann.
Bölvun á starfinu
Íslenska járnblendifélagið var stofnað árið 1975 og framkvæmdir hafnar á Grundartanga, en Jón tók ekki við starfi framkvæmdastjóra fyrr en tveimur árum síðar. „Fyrsti framkvæmdastjórinn greindist skyndilega með krabbamein og lést aðeins tveimur vikum síðar. Þá tók stjórnarformaðurinn við framkvæmdastjórinni. Það fór ekki betur en svo að hann fékk heilaæxli, varð mikið veikur og lést örfáum misserum síðar. Einhverjum leist nú ekki á blikuna, enda engu líkara en bölvun hvíldi á starfinu. En svo fór að starfið var auglýst. Ég sótti um, var ráðinn og hóf störf 1. nóvember 1977. Þá voru byggingaframkvæmdir í miðjum klíðum. Það kom í minn hlut að búa til þessa skipulagseiningu verksmiðjunnar, sem sagt að manna í allar stöður til að hægt væri að reka fyrirtækið. Ég var alveg blautur á bakvið eyrun þegar ég byrjaði og grænn í svona framkvæmdum. Áður hafði ég starfað sem stjórnarráðskontóristi. En síðan fékk ég þetta skemmtilega verkefni. Ég hafði farið í framhaldsnám í opinberri stjórnsýslu í Bandaríkjunum og í gegnum það öðlast svolítinn viðskiptabakgrunn. En að öðru leyti vissi ég ekkert í minn haus þegar ég tók við starfinu,“ segir Jón og brosir. En maðurinn sem mætti blautur á bakvið eyrun upp á Grundartanga átti eftir að vera framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins í 20 ár. „Ég hætti árið 1997. Þá var ég farinn að tapa sjóninni og gat ekki unnið lengur,“ segir Jón.
Upphafsárin erfið
Framleiðsla á kísiljárni á Grundartanga hófst 30. apríl 1977, þegar fyrri ofn verksmiðjunnar „hrökk í gang“ eins og Jón orðar það. Seinni ofninn var gangsettur árið eftir en þeim þriðja var ekki bætt við fyrr en töluvert seinna, eða árið 1999 eftir að byggt hafði verið við verksmiðjuna. Í árdaga var afkastagetan milli 50 og 51 þúsund tonn af kísiljárni á ári. Í dag eru framleidd á Grundartanga um 120 þúsund tonn á ári og verksmiðjan einn stærsti framleiðandi kísiljárns í heiminum.
Rekstur fyrirtækisins hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Jón segir að upphafsárin hafi verið erfið. „Ein stór mistök voru gerð strax í upphafi, þegar Íslenska járnblendifélagið var stofnað og áður en var svo mikið sem byrjað að byggja verksmiðjuna. Áætlað var að söluvirði kísiljárns væri 3405 norskar krónur á hvert útflutt tonn. Allir útreikningar miðuðust við það. Þegar verksmiðjan var sett í gang í lok apríl 1979 hafði verðið hins vegar hrunið niður í 1825 krónur norskar. Svo það var ekki björguleg staðan sem verksmiðjan var í þarna í upphafi,“ segir hann. „Árið eftir var seinni ofninn síðan gangsettur og verksmiðjan komin í fulla framleiðslu. En verðið fyrir kísiljárnið var alveg skelfilegt og engin glæta í rekstrinum eins og hann fór af stað, tap fyrstu árin og fyrirtækið í uppnámi. Árið 1983 var fyrirtækið komið á heljarþröm og ljóst að eigendur þyrftu að leggja til hlutafé svo hægt væri að halda rekstri áfram,“ segir Jón. „Elkem var auðvitað í sömu þrengingum á öðrum vígstöðvum, enda heimsmarkaðsverðið lágt. Þeir treystu sér því ekki í hlutafjáraukningu. Fór svo að lokum að Elkem, sem átti þá 45% hlut á móti ríkinu, seldi 15% af sínum hlut til japanskra aðila. Þeirra framlag varð því í raun hlutafjáraukningin. Þetta gekk í gegn í ársbyrjun 1984 og fyrirtækinu var bjargað,“ segir Jón. „Þá allt í einu færðist líf í markaðinn. Gott verð fékkst fyrir kísiljárnið, fyrirtækið í blússandi rekstri og alveg prýðileg afkoman,“ segir hann.
Miklar sveiflur í verði
En Adam var ekki lengi í paradís. Þannig er nefnilega mál með vexti að Kínverjar voru og eru langstærstu stálframleiðendur heimsins, en kísiljárn er notað til framleiðslu á stáli. Kínverjar framleiða líka kísiljárn til eigin nota, en voru ekki alltaf sjálfum sér nógir. Þegar þá vantaði kísiljárn þá fluttu þeir það inn og verðið hækkaði. Önnur árin keyptu þeir ekkert og þá féll verðið. „Þannig sveiflaðist verðið alveg gríðarlega mikið. Árin 1985 og 1986 keyptu Kínverjar ekkert og það kom mikil niðursveifla,“ segir Jón. „Þá fengum við að reyna á eigin skinni að bankar lána ekki fyrirtækjum sem þurfa á peningum að halda,“ segir hann. „Örfáum árum áður, þegar allt var í blóma og fyrirtækið græddi, þá biðu menn í röðum eftir að fá að lána okkur peninga. En þarna var komið annað hljóð í strokkinn,“ bætir hann við. Að lokum segir Jón að Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafi sameinast um að lána félaginu pening. „Það varð verksmiðjunni til lífs,“ segir framkvæmdastjórinn fyrrverandi. „Árin þar á eftir voru góð, myljandi markaður og við græddum peninga hægri, vinstri. Við stjórnendurnir ætluðum hins vegar að láta fyrri niðursveiflur okkur að kenningu verða og slá lán á meðan allir vildu lána okkur. Það veitti ekki af þegar næsta dýfa kom, en sú varði hins vegar ári lengur en við höfðum búist við. Þegar lánin féllu á gjalddaga var enginn tilbúinn að framlengja þó framleiðslan gengi í sjálfu sér vel,“ bætir hann við. „Árið 1992 vorum við komnir með bakið upp við vegg. Forsætisráðherra var á þeirri skoðun að það ætti bara að láta fyrirtækið fara á hausinn en við reyndum hvað við gátum að bjarga rekstrinum. Samið var við Landsvirkjun um að fresta greiðslum fyrir rafmagnið og lán voru endurfjármögnuð,“ segir Jón.
Fimmtungi sagt upp störfum
En fleira þurfti að gera til að bjarga málunum á sínum tíma. „Lækka þurfti launakostnað fyrirtækisins um 20% sem lið í því að gera fyrirtækið lífvænlegt. Við þurftum því að segja upp 38 manns, sem var fimmtungur af öllu starfsfólki verksmiðjunnar á þeim tíma. Með því að búa svona um hnútana þurftu eigendurnir aðeins að leggja til örlítið fé til að bjarga rekstrinum,“ segir Jón. „En þetta var mjög erfitt. Starfsmannahópurinn var alla mína tíð alveg frábær, samheldinn og góður hópur og lítil starfsmannavelta,“ bætir hann við. „Það sem við áttuðum okkur síðan á var að mikil framleiðniaukning hafði orðið í fyrirtækinu. Framleiðslan var á þessum tímapunkti orðin á bilinu 65 til 67 þúsund tonn á ári, en áður hafði verið talið að tveir ofnar gætu ekki skilað meiru en 50 til 51 þúsund tonnum að hámarki. Þessi framleiðniaukning var eingöngu tilkomin vegna þróunar í tækni og verklagi hér heima,“ segir hann. „Fyrirtækið náði síðan góðu flugi eftir þetta. Afkoman var ágæt frá árinu 1993 og var það enn þegar ég hætti árið 1997,“ segir Jón.
Fram úr Norðmönnunum
Á þeim tíma þegar verksmiðjan var enn í byggingu voru menn kostaðir til Noregs að sækja þekkingu og læra til verka í verksmiðjum Elkem þar ytra. Samið var við Elkem í Noregi um sérstakar greiðslur vegna þessa. „Samningurinn sem gerður var við Norðmennina hljóðaði upp á 3% af söluvirði afurðanna í 15 ár, í skiptum fyrir tæknikunnáttu og ýmsa þekkingu. Sá dagur rann hins vegar upp áður en samningstímanum lauk að verksmiðjan á Grundartanga skilaði um 30% meiri afköstum en aðrar sambærilegar verksmiðjur Elkem. Ég fór til fundar við Norðmennina og vakti máls á þessu. Framleiðslan á Grundartanga var orðin miklu meiri en talið var mögulegt í upphafi og Norðmennirnir í raun farnir að sækja þekkingu til okkar. Okkur þætti óeðlilegt að þurfa á sama tíma að greiða fyrir þekkingu sem við fengjum ekki. Þeir féllust á þetta Norðmennirnir og þessar greiðslur voru felldar niður síðustu árin,“ segir Jón.
Samið um kaup og kjör
Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var ein af fyrstu verksmiðjunum sem reistar voru hér á landi sem setja má undir hatt stóriðjunnar. Jón segist hér að ofan hafa verið blautur á bakvið eyrun í upphafi, en hann var alls ekki sá eini. Þegar kom að því að semja um kaup og kjör starfsmanna segir hann að menn hafi varla vitað hvert þeir ættu að snúa sér. „Eins og alltaf í þá daga þá komu stjórnmálaflokkarnir sínum mönnum að í stjórnum allra ríkisfyrirtækja. Í stjórn Íslenska járnblendifélagsins var m.a. einn Alþýðubandalagsmaður og hann fékk því ráðið að fyrirtækið stæði fyrir utan Vinnuveitendasambandið. Það stóð því upp á mig að semja við allan mannskapinn um kaup og kjör. Ég fékk til fundar við mig átta manns frá þeim hinum verkalýðs- og stéttarfélögum á svæðinu og landssamböndum. Þegar ég hitti þá rann upp fyrir mér að augljóslega vissi enginn þeirra neitt um svona verksmiðju,“ segir Jón. Úr varð að hópnum var boðið í vikuferð til Noregs. Þar voru skoðaðar verksmiðjur Elkem, rætt við starfsmenn, trúnaðarmenn og fleiri, m.a. tólf Íslendinga sem voru að læra til verka í verksmiðju í Kristiansand. „Í ferðinni gerði ég vel við alla í mat og drykk og hristi hópinn vel saman. Fyrir vikið gengu allar samningarviðræður vel og ég hafði alltaf þá tilfinningu að allir væru í sama liði,“ segir hann. „Þegar kom að samningagerðinni sjálfri var krafa stéttarfélaganna síðan frekar einföld, í rauninni; að gerðir væru sambærilegir samningar og giltu í álverinu í Straumsvík. Sú varð raunin og samningarnir voru eins í öllum megindráttum,“ segir Jón. „En eitt var alveg bagalegt við Straumsvíkursamningana eins og þeir voru þá; verkakonur voru á miklu lægra kaupi en verkamenn. Kjartan Guðmundsson var aðaltrúnaðarmaður verkalýðsfélaganna í 15 ár. Við jöguðumst og rifumst um flesta hluti. Ef ekki daglega þá vikulega. En eitt vorum við sammála um og það var að þessi launamunur verkakvenna og -karla gengi ekki. Ár frá ári unnum við því markvisst að því að laga þetta. Það tók stanslausa vinnu í 18 ár,“ segir Jón. „Ég er alltaf dálítið montinn af því að hafa átt þátt í að koma þessu í eðlilegt horf,“ bætir hann við.
Samofin samfélaginu
Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hefur sett svip sinn á samfélagið í nágrenni sínu allar götur frá því hún var reist. Fjölmargir starfsmenn hennar, og síðar annarra fyrirtækja á Grundartangasvæðinu, eru búsettir á Akranesi, Hvalfjarðarsveit, Borgarnesi og Borgarfirði. Það er ekki fyrr en í seinni tíð að stærri hluti starfsfólksins en áður kemur til vinnu frá höfuðborgarsvæðinu, eða frá því Hvalfjarðargöngin voru grafin. Járnblendiverksmiðjan á raunar sinn þátt í því að göngin komu til sögunnar. „Á tíunda áratugnum var Vegagerðin að kanna hvernig botn Hvalfjarðar lægi, en þá voru menn farnir að ræða um hugsanleg göng undir fjörðinn. Kom að því að leigja þurfti skip frá Noregi til að mæla botninn. Það kostaði 50 milljónir á þeim tíma og Vegagerðin taldi sig ekki hafa efni á því. Íslenska járnblendifélagið var á þeim tíma þokkalega sett og sömuleiðis óbundið öðrum hvað varðaði fjármál Grundartangahafnar, sem félagið var þá eini notandinn að. Í sameiningu ákváðu því Íslenska járnblendifélagið, Grundartangahöfn, Skilmannahreppurinn gamli og Sementsverksmiðjan á Akranesi að leggja 12,5 milljónir frá hverjum og einum í púkkið til að kosta þessar botnmælingar. Þær rannsóknir gerðu það mögulegt að hægt var að hanna og síðar grafa Hvalfjarðargöng,“ segir Jón. „Járnblendifélagið var síðan einn af stofnaðilum Spalar, sem annaðist framkvæmdina og rekstur ganganna allt þar til þau voru gefin ríkinu síðastliðið haust,“ segir Jón Sigurðsson að endingu.
Viðtalið birtist í Skessuhorni vorið 2019. Kristján Gauti Karlsson blm Skessuhorns skráði.