ÍA tók á móti Fjölni í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og fór leikurinn fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Hann fór frekar rólega af stað, lítið var skorað í fyrsta leikhluta en gestirnir voru sprækari framan af og komust í 4:11 eftir rúman þriggja mínútna leik. Skagamenn náðu að bregðast við þessu og höfðu náð að jafna leikinn þegar tvær mínútur voru eftir en Fjölnir átti síðasta orðið með tveimur vítaskotum og leiddi með tveimur stigum, 13:15. Í öðrum leikhluta voru gestirnir ívið sterkari, komust í tíu stiga forystu eftir tæpar fjórar mínútur, 18:28, en þá kom ÍA sér aftur inn í leikinn með því að skora átta stig í röð án svars frá Fjölni. Þá kom aftur góður kafli frá Fjölni og þeir fóru inn í hálfleikinn með sjö stiga forystu, staðan 32:39 Fjölni í vil.
Um miðjan þriðja leikhluta var munurinn á milli liðanna aðeins tvö stig, 43:45, og hélst á svipuðum nótum út leikhlutann en staðan var 50:53 fyrir Fjölni fyrir síðasta fjórðung leiksins. Skagamenn náðu síðan að jafna fljótlega í fjórða leikhluta og náðu að komast yfir um miðjan leikhlutann, 63:59. Þá settu gestirnir í gírinn og voru með fimm stiga forystu, 65:70, þegar tvær mínútur voru eftir. Það var síðan á lokamínútu leiksins sem ótrúlegir hlutir fóru að gerast. Fjölnismaðurinn Simon Fransis kom Fjölni í 71:74 með tveimur vítaskotum þegar 24 sekúndur voru eftir og í næstu sókn hitti Marko Jurica úr ÍA ekki úr galopnu þriggja stiga skoti sínu en Jalen Dupree tók sóknarfrákastið og setti boltann í körfuna. Þegar aðeins tólf sekúndur voru eftir af leiknum fóru Fjölnismenn í sókn en misstu boltann frá sér og Skagamenn geystust fram til að reyna að tryggja sér sigurinn. Þegar sirka sex sekúndur voru eftir fékk Marko Jurica boltann undir körfunni en hitti ekki úr dauðafæri, boltinn barst síðan út í teiginn þar sem Gabriel Adersteg tók vinstri handar sveifluskot í átt að körfunni en boltinn fór af hringnum þar sem Jalen Dupree blakaði honum í átt að körfunni en ofan í fór boltinn ekki. Hann kom síðan boltanum ofan í körfuna en þá var tíminn runnin út og Fjölnir fagnaði naumum sigri í spennutrylli, lokastaðan 73:74 fyrir Fjölni.
Marko Jurica var stigahæstur hjá ÍA í leiknum með 20 stig og 11 fráköst, Gabriel Adersteg var með 19 stig og 9 fráköst og Jalen Dupree með 17 stig og 12 fráköst. Hjá Fjölni var Lewis Diankulu með 31 stig og 12 fráköst, Simon Fransis var með 23 stig og Hilmir Arnarson með 7 stig.
Þetta var fjórði tapleikur Skagamanna í röð í deildinni og þeir eru nú í næst neðsta sæti deildarinnar með tíu stig eftir 15 leiki en á botninum er Þór Akureyri með aðeins tvö stig. Næsti leikur ÍA er á móti Hrunamönnum á föstudaginn á Flúðum og hefst klukkan 19.15.