Á sunnudaginn verða 40 ár liðin síðan tvö krapaflóð féllu á bæinn Patreksfjörð með þeim afleiðingum að fjögur létust og nítján hús skemmdust. Að því tilefni verður blásið til minningarathafnar um hin látnu.
Þann 22. janúar árið 1983 voru Patreksfirðingar að gera sig prúðbúna fyrir þorrablót þegar krapaflóðin féllu með stuttu millibili á bæinn. Mikil eyðilegging átti sér stað og mörg misstu aleigu sína. Valgerður Jónsdóttir 77 ára, Marteinn Ólafur Pétursson 41 árs, Sigurbjörg Sigurðardóttir 58 ára og Sigrún Guðbrandsdóttir 6 ára létust öll í flóðinu en auk þeirra slösuðust tíu manns.
Viðbragðsaðilar frá Patreksfirði, nærliggjandi byggðalögum og Reykjavík lyftu grettistaki við að bjarga fólki úr krapanum. Bæjarbúar söfnuðust saman í félagsheimilinu á meðan björgunarstarf stóð yfir, enda nóg af þorramat til að metta fjöldann. Allir sem vettlingi gátu valdið lögðu hönd á plóg en atburðurinn umturnaði lífi margra Patreksfirðinga, enda um náið samfélag að ræða og enga áfallahjálp að fá á þessum tíma.
Minningarathöfn 40 árum síðar
Til að minnast atburðarins og þeirra sem létust verður haldin minningarathöfn á Patreksfirði sunnudaginn 22. janúar. Minningarstund verður í Patreksfjarðarkirkju kl. 14 að Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi viðstöddum. Þar munu listamenn af svæðinu flytja tónlistaratriði. Að því loknu verður gengið að minnisvarða um þá sem létust í krapaflóðunum. Þar verða viðbragðsaðilar á svæðinu í broddi fylkingar. Því næst verður minningarathöfn í félagsheimilinu þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar og Úlfar Thoroddsen fyrrverandi sveitarstjóri Patreksfjarðarhrepps taka til máls.
-fréttatilkynning