Hamar tók á móti Skallagrími í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn í Hveragerði. Miðað við gengi þessara liða undanfarið mátti búast við hörkuleik því Hamar hafði unnið fimm leiki í röð í deildinni og Skallagrímur fjóra. Það var sannkölluð flugeldasýning í fyrsta leikhluta því alls voru skoruð samtals 70 stig en því miður fyrir Skallanna voru það Hamarsmenn sem sprengdu flesta flugeldana, staðan 42:28 fyrir Hamarsmenn. Sýningin hélt áfram í öðrum leikhluta, Skallagrímur náði að minnka muninn í fimm stig eftir rúman fjögurra mínútna leik og komst síðan yfir, 57:58, í fyrsta skiptið í leiknum tveimur mínútum síðar. Hamar var með þriggja stiga forystu í hálfleik, 68:65, og ljóst að áhorfendur áttu von á meiri skemmtun í seinni fjórðungi.
Sú varð raunin og leikmenn gerðu hvað þeir gátu til að skemmta áhorfendum með miklu stigaskori og tilþrifum. Um miðjan þriðja leikhluta var staðan 85:80 Hamri í vil og við lok hans var forysta liðsins enn fimm stig, 95:90. Þegar fimm mínútur voru búnar af fjórða leikhluta var staðan 107:105 fyrir heimamenn en í kjölfarið gerðu þeir út um leikinn með góðum lokakafla þar sem þeir náðu 20:8 áhlaupi og unnu að lokum öruggan sigur, lokatölur 127:113.
Stigahæstir hjá Skallagrími voru þeir Keith Jordan Jr. sem var með 40 stig og 17 fráköst og þeir Milorad Sedlarevic og Björgvin Hafþór Ríkharðsson voru með 23 stig hvor. Hjá Hamar var Jose Aldina með 36 stig, Mirza Sarajlija með 26 stig og 10 stoðsendingar og Björn Ásgeir Ásgeirsson með 18 stig.
Næsti leikur Skallagríms er gegn toppliði Álftaness næsta föstudag í Fjósinu í Borgarnesi og hefst klukkan 19.15.