
Hamar vann Skallagrím í miklum stigaleik
Hamar tók á móti Skallagrími í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn í Hveragerði. Miðað við gengi þessara liða undanfarið mátti búast við hörkuleik því Hamar hafði unnið fimm leiki í röð í deildinni og Skallagrímur fjóra. Það var sannkölluð flugeldasýning í fyrsta leikhluta því alls voru skoruð samtals 70 stig en því miður fyrir Skallanna voru það Hamarsmenn sem sprengdu flesta flugeldana, staðan 42:28 fyrir Hamarsmenn. Sýningin hélt áfram í öðrum leikhluta, Skallagrímur náði að minnka muninn í fimm stig eftir rúman fjögurra mínútna leik og komst síðan yfir, 57:58, í fyrsta skiptið í leiknum tveimur mínútum síðar. Hamar var með þriggja stiga forystu í hálfleik, 68:65, og ljóst að áhorfendur áttu von á meiri skemmtun í seinni fjórðungi.