Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa ráðið Þorstein Gunnlaugsson ráðgjafa til að gera úttekt á stöðu fjarskiptamála á Vesturlandi. Í verkefninu felst að skoða sérstaklega hvar eru gloppur í fjarskiptum, bæði á þjóðvegum og inn til sveita, hvernig fjarskiptafélögin hyggjast leysa úr þessum vanda og hvernig stjórnvöld hyggjast koma að þessari uppbyggingu. Úttektin mun bæði ná til stöðu á farnetsdekkningu sem og fasttengingu (ljósleiðara) til heimila og fyrirtækja á Vesturlandi.
Á vef SSV segir að verkefnið sé liður í því að skerpa sýn á stöðu fjarskiptamála á Vesturlandi þannig að sveitarfélögin hafi sem bestar upplýsingar um stöðu þeirra og geti kallað eftir úrbótum til þess að bæta búsetuskilyrði og tryggja öryggi íbúa og ferðamanna sem fara um Vesturland. Verkefnið er fjármagnað af Sóknaráætlun Vesturlands og er hluti af vinnu við innviðagreiningu fyrir landshlutann.
Þorsteinn Gunnlaugsson hefur síðastliðin rúm 20 ár starfað bæði á radíódeildum Símans og Vodafone og komið að rekstri og hönnun og stýrt uppbyggingu sjónvarps- og útvarpsdreifikerfa Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins um land allt. Síðast starfaði hann sem deildarstjóri hjá Sýn, móðurfélagi m.a. Stöðvar 2 og Vodafone.