Fyrsti þátturinn í beinni útsendingu Idolsins fór fram í Idolhöllinni í Gufunesi á föstudagskvöldið og var sýndur á Stöð 2. Átta keppendur mættu til leiks en aðeins sjö keppendur komust áfram og var því einn keppandi sendur heim eftir kvöldið. Þema kvöldsins var „Þetta er ég“ og fluttu keppendur lög sem endurspegluðu tónlistarstíl þeirra í því skyni að leyfa áhorfendum að kynnast þeim betur. Í fyrsta skipti voru örlög keppenda í höndum áhorfenda því áður hafði dómnefndin valið keppendur áfram en hún er skipuð söngvurunum Herra Hnetusmjöri, Birgittu Haukdal, Daníel Ágústi Haraldssyni og Bríet. Á föstudagskvöldið og í næstu þáttum Idolsins fá Íslendingar að kjósa um í símakosningu hvaða söngvara þeir vilja áfram í hverjum þætti.
Að lokinni símakosningu í þættinum voru þau Saga Matthildur, Birgir Örn og Þórhildur Helga í neðstu þremur sætunum og var það rapparinn Birgir Örn sem flutti frumsamið lag sem var sendur heim eftir kvöldið.
Skagamærin Ninja Sigmundsdóttir sem er á sautjánda ári flutti lagið I Drink Wine með Adele og gerði það afar vel. Þau sem fengu mesta lofið í þættinum frá dómurum voru auk Ninju þau Kjalar sem söng lagið Easy með Commodores og Bía sem söng Listen með Beyoncé. Eins og staðan er núna eru þau því líklegust til sigurs en margt getur breyst þar til nýr Idol sigurvegari verður krýndur 10. febrúar.