Af viðtökum að dæma höfðu margir beðið með óþreyju eftir því að karlakórinn Söngbræður stigi á stokk á ný eftir langt hlé vegna heimsfaraldurs. Boðað var til söngveislu af þjóðlegu gerðinni í félagsheimilinu Þinghamri í Stafholtstungum síðastliðinn laugardag. Auk söngatriða undir stjórn Viðars Guðmundssonar kórstjóra var matarveisla þar sem á borðum var saltað hrossakjöt og svið með tilheyrandi meðlæti. Löngu hafði verið uppselt á samkomuna en gestir voru um 350.
Á efnisskránni voru lög af ýmsu tagi, ýmist hefðbundin karlakóralög en einnig nýrri slagarar sem búið er að útsetja fyrir kór. Gunnar Örn Guðmundsson kórformaður setti samkomuna og minntist hrossanna sem fórnað hafði verið fyrir málefnið. Þá tók Viðar kórstjóri við og kynnti hvert atriðið á fætur öðrum og kryddaði með léttu gríni. Nokkrir einsöngvarar úr kórnum létu ljós sitt skína en kórinn býr m.a. yfir afar góðum tenórum sem fóru létt með sígild sem og klassísk lög. Gesta einsöngvari var Eva Margrét Jónudóttir. Að dagskrá lokinni var fjöldasöngur og spjall áður en gestir héldu glaðir út í frostkalda vetrarnóttina.
Á meðfylgjandi myndbandi sem Skessuhorn tók syngur Jóhannes Jónu-Guðbrandsson einsöng. Lagið er Hafið lokkar og laðar.