Í gær var fjölmenni við leit að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem saknað hefur verið frá því laugardaginn 7. janúar. Auk björgunarsveitarfólks úr héraði hafa ýmsir fleiri lagt lið við þetta stóra leitarverkefni; björgunarsveitarfólk víða af landinu, sjálfboðaliðar, kvenfélagskonur og fyrirtæki sem gefið hafa matvæli. Þá hefur þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, sérsveitarmenn og lögreglumenn úr héraði komið að leit. Ásmundur Kristinn Ásmundsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi segir í samtali við Skessuhorn að í síðustu viku, frá því á þriðjudag þegar staðfest var að mannsins væri saknað, hafi um 200 manns tekið þátt í leitinni. Enn fleiri bættust svo við í gær og fékk Skessuhorn staðfest að um 260 manns hafi verið skráðir í leitargrunn björgunarsveitanna. Engin skipulögð leit fer hins vegar fram í dag og í raun er beðið nýrra vísbendinga. Áfram biðlar lögregla til eigenda fasteigna í Borgarnesi og nágrannasveitum að leita við hús, í húsagörðum og geymslum og þar með talið eigendur sumarhúsa.
„Nú hefur mjög víðtæk leit staðið yfir í fimm daga, en engar vísbendingar hafa borist um ferðir mannsins frá því síðast sást til hans í myndavél í Olís í Borgarnesi 7. janúar. Í raun vitum við ekkert meir. Við höfum nú ákveðið að fara ekki í massífa leit fyrr en nýjar vísbendingar berast,“ segir Ásmundur í samtali við Skessuhorn. Í dag er unnið við að skoða upptökur sem fengust á dróna. „Nú hefur m.a. verið kannað hvort maðurinn hafi hugsanlega farið af landi brott, tekið strætó eða fengið far með bíl, en engar slíkar ábendingar hafa borist. Við vitum að sími hans og bíll eru á heimili hans í Borgarnesi.“ Ásmundur segir að búið sé að beita tiltækum búnaði við leitina; leitað hefur verið á landi, úr þyrlum, bátum og drónum verið flogið. Í gær voru fjórtán leitarhundar að störfum og komu kafarar frá sérsveitinni að leitinni og könnuðu ísilagðar víkur sem hundar höfðu sýnt áhuga, en án árangurs. Ásmundur segir að vissulega hafi klæðnaður sitt að segja þegar svo víðtæk leit er í gangi, en Modestas var dökkklæddur á síðustu myndinni sem honum bregður fyrir á.
Ef fólk hefur einhverjar upplýsingar um ferðir mannsins er hægt að hafa samband við Lögregluna á Vesturlandi.