Fréttir
Leit hefur staðið yfir af landi og úr lofti. Ljósm. Brák.

Enn hefur leitin ekki borið árangur

Í gær var fjölmenni við leit að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem saknað hefur verið frá því laugardaginn 7. janúar. Auk björgunarsveitarfólks úr héraði hafa ýmsir fleiri lagt lið við þetta stóra leitarverkefni; björgunarsveitarfólk víða af landinu, sjálfboðaliðar, kvenfélagskonur og fyrirtæki sem gefið hafa matvæli. Þá hefur þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, sérsveitarmenn og lögreglumenn úr héraði komið að leit. Ásmundur Kristinn Ásmundsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi segir í samtali við Skessuhorn að í síðustu viku, frá því á þriðjudag þegar staðfest var að mannsins væri saknað, hafi um 200 manns tekið þátt í leitinni. Enn fleiri bættust svo við í gær og fékk Skessuhorn staðfest að um 260 manns hafi verið skráðir í leitargrunn björgunarsveitanna. Engin skipulögð leit fer hins vegar fram í dag og í raun er beðið nýrra vísbendinga. Áfram biðlar lögregla til eigenda fasteigna í Borgarnesi og nágrannasveitum að leita við hús, í húsagörðum og geymslum og þar með talið eigendur sumarhúsa.

Enn hefur leitin ekki borið árangur - Skessuhorn