Í fundargerð hjá umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd í Hvalfjarðarsveit 4. janúar síðastliðinn kemur fram að stjórn Faxaflóahafna hafi veitt hafnarstjóra heimild til þess að undirrita samning við Qair Iceland ehf. um úthlutun lóðarinnar Katanesvegar 30 á Grundartanga fyrir framleiðslu á rafeldsneyti. Í samningsdrögum er gert ráð fyrir að lóðinni verði skipt upp í þrjár nánast jafnstórar lóðir og einni þeirra úthlutað nú. Jafnframt er þar gerður fyrirvari um að samningar náist um vatnsöflun og byggingu hafnar fyrir starfsemina. Við afgreiðslu sína benti nefndin á að úthlutun hluta lóðarinnar þyrfti að vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Endanlegri afgreiðslu var vísað til sveitarstjórnar og á fundi hennar síðasta miðvikudag var tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Í gildi er samningur á milli Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna sem kveður á um að samningsaðilar taki sameiginlega ákvörðun um hvort til úthlutunar lóða komi á Grundartanga. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um fyrirhugaða starfsemi á lóðinni þá er að mati Faxaflóahafna ljóst að henni fylgir ekki mengun sem hamlar því að til úthlutunar komi með vísan til samnings Faxaflóahafna og sveitarfélagsins.
Qair Iceland ehf. hefur afhent Skipulagsstofnun lokaútgáfu skýrslu frá VSÓ Ráðgjöf sem ber heitið „Framleiðsla á vistvænum orkugjöfum á Grundartanga – Matsáætlun,“ sem sveitarstjórn hefur samþykkt að uppfylli ákvæði a-liðar 2. gr. áðurnefnds samnings. Á grundvelli þeirrar skýrslu óskuðu Faxaflóahafnir eftir að Hvalfjarðarsveit veitti samþykki sitt fyrir úthlutuninni.