Kjöri íþróttamanneskju Borgarfjarðar var lýst í Hjálmakletti í Borgarnesi á þrettándanum. Nýtt heiti hefur verið tekið upp á verðlaun þessi, en að öðru leyti sama viðurkenning og mörg undanfarin ár. Að kjörinu standa Ungmennasamband Borgarfjarðar og sveitarfélögin á starfssvæðinu. Ýmis verðlaun voru afhent, svo sem hvatningarverðlaun, verðlaun fyrir setu í landsliðum og Auðunsbikar. Mjög öflugur tíu manna hópur íþróttafólks var í kjöri að þessu sinni, en 13 höfðu verið tilnefndir. Til marks um styrkleika íþróttafólksins að þessu sinni má nefna að heimsmethafi í kraftlyftingum hafnaði í þriðja sæti í kjörinu. Þá eru aldursreglur við valið með þeim hætti að fulltrúi hestamanna, sem hafði verið útnefndur, reyndist ekki kjörgengur sökum þess að hafa ekki náð 14 ára aldri. Kristín Eir Hauksdóttir Holaker vann þó til allra helstu verðlauna sem í boði voru á landsvísu í barnaflokki í hestaíþróttum á síðasta ári.
Landsliðsfólk og maraþonbikar
Dagskráin hófst með hvetjandi ávarpi Stefáns Brodda Guðjónssonar sveitarstjóra. Að því loknu tók Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir formaður stjórnar UMSB við keflinu og lýsti kjöri en Bjarney Bjarnadóttir framkvæmdastjóri afhenti verðlaunagripi. Byrjað var á að veita verðlaun þeim sem hafa verið í landsliðum á árinu. Það voru þau Alexandrea Rán Guðnýjardóttir kraftlyftingakona, Díana Björg Guðmundsdóttir körfuknattleikskona, Eiríkur Frímann Jónsson körfuknattleiksmaður, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir sundkona, Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir í frjálsum íþróttum, Heiður Karlsdóttir körfuknattleikskona og Victoría Lind Kolbrúnardóttir körfuknattleikskona.
Jósep Magnússon hlaut Maraþonbikarinn annað árið í röð, en sá bikar var gefinn af Bjarna Bjarnasyni á sínum tíma og er veittur fyrir besta tímann í maraþonhlaupi á árinu.
Valdi hlaut hvatningarverðlaun UMSB
Hvatningarverðlaun UMSB voru veitt í fyrsta sinn nú á þrettándanum. Þau sem geta hlotið hvatningarverðlaun UMSB eru aðildarfélag, deild innan aðildarfélags eða einstaklingur innan aðildarfélags UMSB fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara framúr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Hvatningarverðlaun UMSB 2022 hlaut Þorvaldur Jónsson, eða Valdi í Brekkukoti. Í umsögn segir: „Verðlaunin hlýtur hann fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Hann hefur í áratugi staðið vaktina fyrir UMFR sama hvort um er að ræða íþróttaviðburði, leiklistarstarf, viðhald á eignum félagsins eða aðra viðburði sem skapa það samfélag sem við viljum lifa í. Hann hefur eytt meiri frítíma í vinnu fyrir hreyfinguna en margur annar og alltaf með brosi á vör og tilbúinn að leiðbeina þeim honum yngri og áhugasömu. Hann hefur einstakt lag á að fá fólk til að taka þátt í starfinu og alltaf tilbúinn að mæta með harmonikkuna eða spila á píanóið. Svona félagar eru hryggjarstykkið í allri sjálfboðavinnu sem við þurfum svo mikið á að halda í okkar samfélagi. Fyrir utan óeigingjarna vinnu fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf hefur hann sinnt störfum í björgunarsveit og sóknarnefnd fyrir samfélagið í tugi ára. Hann hefur líka með sínum einstaka áhuga á góðu samfélagi skilað eldmóði sínum til komandi kynslóða sem er ekki minna mikilvægt.“
Kristján Karl hlaut Auðunsbikarinn
Bjarni Þór Traustason lýsti niðurstöðu dómnefndar um viðurkenningu úr Minningarsjóði um Auðunn Hlíðkvist Kristmarsson, sem lést 2. ágúst árið 1995, aðeins 14 ára gamall. Foreldrar Auðuns, þau Íris Hlíðkvist Bjarnadóttir og Kristmar Ólafsson, stofnuðu sjóðinn til minningar um son sinn og er tilgangurinn með honum að minnast Auðuns Hlíðkvists og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu. Viðurkenningin var nú veitt í 27. skipti en hún er veitt ungmenni úr UMSB sem þykir hafa skarað fram úr jafnöldrum sínum á því ári sem þau urðu fjórtán ára. Viðurkenninguna að þessu sinni hlaut Kristján Karl Hallgrímsson knattspyrnumaður úr Skallagrími og ÍA, búsettur á Vatnshömrum í Andakíl. Kristján Karl er mjög efnilegur markvörður sem æfir og keppir með 3. flokki ÍA en er jafnframt fyrirmynd annarra ungmenna, ósérhlífinn og áhugasamur.
Kristín efst annað árið í röð
Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2022, annað árið í röð, er Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona frá Laugalandi. Þess má geta að skömmu eftir að hún tók við verðlaunum sínum í Borgarnesi brunaði hún á Akranes þar sem hún var jafnframt kjörin Íþróttamaður Akraness, þriðja árið í röð. Kristín er 38 ára gömul og keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness. Hún vann til silfurverðlauna á EM og HM og tvíbætti Evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu á árinu. Hún bætti auk þess Íslandsmetin í hnébeygju, réttstöðulyftu, réttstöðulyftu single lift og í samanlögðu. Kristín náði 110,27 IPF-GL stigum á árinu, en það er mesti stigafjöldi sem náðst hefur af íslenskum keppanda. Kristín er nú þriðja á heimslista Alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF) í sínum þyngdarflokki fyrir árið 2022 og á fjórða besta árangur í samanlögðu sem náðst hefur í þessum flokki í sögunni innan IPF.
Í öðru sæti í vali íþróttamanneskju Borgarfjarðar var Bjarki Pétursson golfari, Alexandrea Rán Guðnýjardóttir kraftlyfingakona varð þriðja, Helgi Guðjónsson knattspyrnumaður fjórði og Bjarni Guðmann Jónsson körfuknattleiksmaður fimmti.
Aðrir í kjöri voru í stafrófsröð: Brynjar Snær Pálsson fyrir knattspyrnu, Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir fyrir frjálsar íþróttir, Heiður Karlsdóttir fyrir körfuknattleik, Jósep Magnússon fyrir götuhlaup/utanvegahlaup og Victoria Lind Kolbrúnardóttir fyrir körfuknattleik.