Fréttir
Verðlaunahafar ásamt formanni og framkvæmdastjóra UMSB. Fremst sitja þau sem urðu í efstu fimm sætum eða fulltrúar þeirra. Ljósm. mm

Mjög öflugt íþróttafólk í héraðinu

Kjöri íþróttamanneskju Borgarfjarðar var lýst í Hjálmakletti í Borgarnesi á þrettándanum. Nýtt heiti hefur verið tekið upp á verðlaun þessi, en að öðru leyti sama viðurkenning og mörg undanfarin ár. Að kjörinu standa Ungmennasamband Borgarfjarðar og sveitarfélögin á starfssvæðinu. Ýmis verðlaun voru afhent, svo sem hvatningarverðlaun, verðlaun fyrir setu í landsliðum og Auðunsbikar. Mjög öflugur tíu manna hópur íþróttafólks var í kjöri að þessu sinni, en 13 höfðu verið tilnefndir. Til marks um styrkleika íþróttafólksins að þessu sinni má nefna að heimsmethafi í kraftlyftingum hafnaði í þriðja sæti í kjörinu. Þá eru aldursreglur við valið með þeim hætti að fulltrúi hestamanna, sem hafði verið útnefndur, reyndist ekki kjörgengur sökum þess að hafa ekki náð 14 ára aldri. Kristín Eir Hauksdóttir Holaker vann þó til allra helstu verðlauna sem í boði voru á landsvísu í barnaflokki í hestaíþróttum á síðasta ári.

Mjög öflugt íþróttafólk í héraðinu - Skessuhorn