Fjölmiðlarnir Stundin og Kjarninn hafa nú formlega sameinast í einn miðil sem hér eftir ber nafnið Heimildin. Fyrsta tölublað Heimildarinnar er komið út og nýr vefur kominn í loftið. „Fram undan er vegferð sem hófst með samtali aðstandenda Stundarinnar og Kjarnans síðasta haust. Þá var þeirri spurningu varpað fram hvort fjölmiðlarnir myndu verða sterkari saman, heldur en í áframhaldandi samkeppni við hvor annan. Um er að ræða tvö fjölmiðlafyrirtæki sem voru stofnuð út frá svipuðum forsendum og hugmyndafræði, um að sækja vald sitt og rekstrargrundvöll fyrst og fremst til lesenda. Með því er boðið upp á mótvægi við þá skekkju sem myndast hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði,“ skrifa ritstjórarnir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson í opnunarpistli sínum.
Heimildin er í dreifðu eignarhaldi, hátt í fjörutíu aðilar standa að baki fjölmiðlinum og enginn fer með meira en 7,6 prósenta hlut í félaginu. Yfirtökuvarnir eru innbyggðar í samþykktir félagsins og ritstjórar munu skrá hagsmuni sína á opinberum vettvangi. „Allt er þetta gert til að tryggja að miðillinn vinni út frá forsendum almannahagsmuna fremur en sérhagsmuna. Markmiðið er að veita aðhald og almenningi þær upplýsingar sem hann á rétt á,“ segir í tilkynningunni. Á sameinaðri ritstjórn Stundarinnar og Kjarnans starfa nú tólf blaðamenn og mun þeim fjölga á næstu vikum.