Allt frá því á þriðjudag hefur víðtæk leit staðið yfir í Borgarnesi og nágrenni að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni, sem ekkert hefur spurst til síðan laugardaginn 7. janúar. Yfir sextíu sjálfboðaliðar björgunarsveita hafa komið að leitinni og við hana notast m.a. við þyrlur Landhelgisgæslunnar, dróna, fjórhjól, báta og önnur tæki og búnað. Auk þess hafa hundar komið að leit. Nú er aðgerðastjórn að skipuleggja áframhaldandi leit og aukinn þungi verður færður í hana um helgina ef leitin hefur þá ekki skilað árangri.
Modestas er búsettur í Borgarnesi. Rannsóknin hefur lítinn árangur borið fram til þessa og ekkert hefur sést til hans í eftirlitsmyndavélum í verslunum eða annars staðar um bæinn. Síðast er vitað af ferðum hans í Borgarnesi sl. laugardag. Leitin hefur einkum beinst að Borgarnesi og nágrenni. Lögregla biðlaði í gær til íbúa á svæðinu að leita á lóðum sínum, húsum, útihúsum og geymslum.
Allir þeir sem hafa upplýsingar um ferðir Modestas eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Vesturlandi, í síma 444-0300 eða Neyðarlínuna í síma 112.