Varnarmaðurinn Alexander Davey, sem hefur leikið með Skagamönnum síðustu tvö ár, hefur gert samning við ÍA sem gildir út tímabilið 2023. Alex er fæddur árið 1994 og hefur leikið alls 28 deildarleiki og skorað tvö mörk fyrir ÍA á þessum tíma. Í byrjun nóvember kom fram í tilkynningu á FB síðu Knattspyrnufélags ÍA að heimild til riftunar hefði verið virkjuð í samningi hans en því hefur nú verið breytt.
Í vikunni skrifuðu tveir leikmenn undir nýja samninga við Knattspyrnufélag ÍA sem gilda til ársins 2024 en það eru þeir Hlynur Sævar Jónsson og Sigurður Hrannar Þorsteinsson. Fram kemur á FB síðu ÍA að Hlynur Sævar sé fæddur árið 1999 og komi upp úr yngri flokka starfi ÍA. Hann er fjölhæfur leikmaður sem er hafsent að upplagi en getur einnig spilað sem bakvörður og miðjumaður. Hlynur á að baki 111 leiki með Kára, Víkingi Ólafsvík og ÍA í meistaraflokki og í þessum leikjum hefur hann skorað 14 mörk. Sigurður Hrannar er fæddur árið 2000 og kemur upp í gegnum yngri flokkana hjá ÍA. Tímabilið 2021 hélt hann til Gróttu þar sem hann spilaði eitt og hálft tímabil áður en hann snéri aftur heim síðasta sumar. Sigurður er framherji sem á samtals að baki 81 leik með ÍA, Kára og Gróttu og hefur skorað í þeim tólf mörk.
Skagamenn léku um síðustu helgi æfingaleik gegn Þrótti Reykjavík sem lauk með 3-2 sigri ÍA og skoruðu þeir Hlynur Sævar, Sigurður Hrannar og Breki Þór Hermannsson mörk ÍA í leiknum.