Bastian Orri Claes er 16 ára menntskælingur frá Rauðanesi 2 á Mýrum. Hann er á sínu fyrsta ári á starfsbraut við Menntaskóla Borgarfjarðar og starfar við Leikskólann Ugluklett í Borgarnesi tvo daga í viku. Á Uglukletti varð Bastian þess var að kennarar skólans voru oft að fylla á perlubirgðir barnanna en í framhaldinu hóf hann að hanna perluskammtara til að auðvelda perlustundir í leikskólanum. Perluskammtarinn var svo prentaður í þrívíddaprentara MB og er nú kominn í notkun á Uglukletti en stefnt er að því að prenta fleiri slíka skammtara.
,,Í leikskólanum eru svona perlubox sem krakkarnir eru endalaust að biðja um að láta fylla á. Mig langaði að búa til eitthvað einfaldara kerfi svo það þurfi ekki að fylla eins oft á og starfsfólk hefur þá meiri tíma til að rölta á milli og aðstoða fleiri börn,“ segir Bastian í samtali við blaðamann Skessuhorns.
Hvernig býr maður til svona perluskammtara? ,,Ég notaði forrit sem heitir Tinkercad, þú getur gert ýmislegt í því, m.a. þrívíddaprentað,“ segir Bastian og er ánægður með þau fög og færni sem hann lærir í MB og fær að nýta á skapandi hátt. ,,Skammtarinn er hringlaga og það er rampur inni í honum, perlurnar renna svo niður rampinn og út í kassa þar sem krakkarnir sækja sér svo perlur.“ Bastian bætir við að börnin og kennararnir hafi verið mjög ánægð með nýju græjuna og segir að hann eigi örugglega eiga eftir að útbúa eitthvað fleira hagnýtt fyrir leikskólann en af nógu er að taka í hugmyndabankanum.