Enn er leitað að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem lögreglan á Vesturlandi lýsti eftir á mánudaginn. Síðast er vitað um ferðir Modestas í Borgarnesi laugardaginn 7. janúar. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram og ekkert kom út úr upptökum sem skoðaðar voru í gær úr öryggismyndavélum verslana í Borgarnesi þar sem möguleiki var á að Modestas hefði verið.
Aðgerðarstjórnstöð er staðsett á lögreglustöðinni í Borgarnesi og í dag verður haldið áfram að leita um leið og birta tekur og þangað til birtuskilyrði eru ekki lengur til staðar. Lögreglan hefur nota dróna til að leita að manninum og þá er búist við að þyrla Landhelgisgæslunnar komi í dag til að aðstoða við leitina eins og undanfarna tvo daga. Um helgina er stefnan að auka við fjölda björgunarsveitamanna til að ganga fjörur og kemba svæðið enn betur.
Þeir sem hafa séð til Modestas eða vita hvar hann kann að vera niðurkominn eru beðnir að láta lögregluna á Vesturlandi vita í síma 444-0300 eða setja sig í samband við Neyðarlínuna í síma 112.