Á fundi bæjarstjórnar Akraness á þriðjudaginn var til ákvörðunar árleg húsnæðisáætlun kaupstaðarins. Hún hafði verið lögð til kynningar fyrir skóla- og frístundasvið, velferðar- og mannréttindaráð og skipulags- og umhverfisráð og samþykkti bæjarstjórn húsnæðisáætlunina. Húsnæðisáætlun tekur á fjölmörgum þáttum er snerta skipulag og byggingar og því kennir þar margra grasa. Hér er það helsta sem kemur fram í húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar 2023:
Lýsing á atvinnuástandi
Atvinnuleysi hefur verið tiltölulega lágt í samanburði við meðaltal landsins. Atvinnuleysi á Akranesi var 1,6% í nóvember 2022 en var 2,4% á landinu öllu. Um sóknar- og aðgerðaráætlanir má sjá hér:
Þróunarfélagið á Grundartanga
Samstarfsvettvangur sveitarfélaga til að vinna að öflugri atvinnusókn. Akraneskaupstaður leggur til 15 m.kr. á ári. Unnið að uppbyggingu hitaveitu þar sem varmi er nýttur til húshitunar og framleiðslu gufu. Næstu skref nýting í þörungarækt, landeldi og ylrækt. Í undirbúningi er uppbygging öflugrar rafhleðslustöðvar til notkunar á stærri tæki og bíla. Föngun koltvísýrings til niðurdælingar.
Þróunarfélagið á Breið
Samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Brim um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Breið á Akranesi en hvor aðili leggur til 20 m.kr. á ári. Nýstofnað rannsóknar- og nýsköpunarsetur auk samvinnurýmis á Breið. Samstarf 17 aðila með markmiðið að miðla þekkingu á sviði tækni, lýðheilsu og umhverfismála til að leysa úr ólíkum áskorunum og vandamálum sem að heiminum steðja. Áhersla lögð á rannsóknir og þróun á sviði sjávarútvegs, snjalltækni, landbúnaðar, orkufreks iðnaðar, heilbrigðis- og ferðaþjónustu og skapandi greina. Opnuð Fab Lab smiðja Vesturlands með þátttöku 21 fyrirtækis, skóla og opinberra stofnana með tækjabúnaði til fjölbreyttrar framleiðslu sem gefur einstaklingum og fyrirtækjum tækifæri til að móta, hanna og framleiða vörur með aðstoð stafrænnar tækni. Líftæknismiðja stofnuð með þátttöku 13 aðila. Aðstaða til rannsókna og þróunar á útdrætti efna og efnasambanda úr lífmassa. Fyrir frumkvöðla, stofnanir og fyrirtæki. Rannsóknarstarfsemi loftlagsfyrirtækisins Running Tide sem þróar og nýtir tækni og aðferðir sem örva náttúruleg ferli sjávarins í að grípa, binda og geyma kolefni til langs tíma. Hafin skipulagsvinna á Breið á grundvelli opinnar hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðisins.
Grænir iðngarðar í Flóahverfi
Markmiðið er að skapa aðlaðandi umhverfi fyrir fyrirtæki þar sem starfsemi á svæðinu verður skipulögð með hringrásarhagkerfi að leiðarljósi þar sem nýting auðlinda er hámörkuð. Um er að ræða 150 hektara land sem skiptist annars vegar í svæði fyrir hvers konar matvælaræktun og hins vegar í svæði fyrir léttan iðnað og þjónustu. Stefnt að stofnun miðlægs þjónustufyrirtækis sem stýrir sameiginlegum rekstri iðngarðsins í samstarfi við einkaaðila þar sem markmiðið er hagkvæm nýting þjónustu í þágu fyrirtækja í iðngarðinum og samfélagsins alls. Frekari gatnagerð er fyrirhuguð á árunum 2023-2024 til að mæta mikilli eftirspurn, en 19 lóðir sem voru tilbúnar eru uppseldar. Flói 2; svæði við hlið Grænna iðngarða, kynnt fyrir alþjóðlegum fjárfestum og á þeim grunni er verið að vinna deiliskipulag fyrir svæðið.
Önnur verkefni
Uppbygging nýs miðbæjar
Markmið sveitarfélagsins varðandi íbúðauppbyggingu
Almenn íbúðaþörf: Umtalsverð eftirspurn hefur verið eftir öllum tegundum íbúðarhúsnæðis á Akranesi og hefur Akraneskaupstaður átt í fullu fangi við að mæta þeirri eftirspurn en nú er staðan sú að metfjöldi íbúða er í byggingu og framundan er úthlutun eða sala á lóðum á Sementsreit, Dalbrautarreit og Skógarhverfi sem er að mæta betur uppsafnaðri þörf. Einnig er framundan mikil uppbygging íbúða við Smiðjuvelli. Eftirspurn er mikil eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem hefur ekki verið mætt og hefur það haft þau áhrif að eftirspurn er búin að færast til nágrannasveitarfélaganna. Akranes er því bæði að þjóna innri vaxtaþörf sem er tilkomin vegna eðlilegri stækkun bæjarins sem og ytri vaxtaþörf sem er tilkomin vegna vöntunar af öðrum svæðum, sem og vegna sóknar í atvinnumálum sem gert er grein fyrir í kafla um lýsingu á atvinnuástandi. Samhliða uppbyggingu almennra íbúða er unnið eftir aðgerðaráætlun um uppbyggingu húsnæðis fyrir ákveðna hópa.
Íbúðir fyrir fatlaða: Gert er ráð fyrir byggingu fjögurra íbúðakjarna fyrir fatlaða í samvinnu við Hússjóð Brynju, Þroskahjálp, Brák og fleiri aðila á næstu árum. Fyrsti búsetukjarninn er ný tilkomin vegna tilflutnings á húsnæði fatlaðra innan bæjarins en aðrir eru til að mæta fyrirsjáanlegri þörf á næstu árum fyrir íbúðir fatlaðra.
Íbúðir fyrir aldraða: Í uppbyggingu er fjölbýlishús með samtals 31 íbúð í samstarfi við Leigufélag aldraða, sem er ætlað að mæta þörf fyrir öruggt leiguhúsnæði fyrir eldri borgara á Dalbraut 6 við hlið þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða.
Íbúðir á almennum leigumarkaði: Vöntun hefur verið á öruggu leiguhúsnæði á Akranesi fyrir fólk með lágar og millitekjur og hefur verið ráðist í uppbyggingu í samstarfi við Bjarg húsnæðisfélag á 24 íbúðum á Asparskógum 3.
Sala á félagslegu leiguhúsnæði: Fyrirhugað er samhliða ofangreindum aðgerðum að selja hluta þeirra eigna sem Akraneskaupstaður á sem hafa verið félagslegar leiguíbúðir og bjóða fólki önnur búsetuúrræði. Markmiðið með þessari aðgerð er að leiða fram verðmæti sem liggja í efnahagsreikningi Akraneskaupstaðar og draga úr viðhaldskostnaði til framtíðar af samtals 22 íbúðum. Líklega verður hluta þessara íbúða haldið áfram í okkar eigu. Ætlunin er að aðgerðin skili söluhagnaði u.þ.b. 300-400 milljónir króna og dragi úr viðhaldsþörf sem nú er áætluð um 100 milljónir króna á fasteignum kaupstaðarins.
Lóðir og skipulag Markmið sveitarfélagsins í lóðamálum: Mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á SV horni landsins hefur búið til eftirspurnardrifinn lóðamarkað á Akranesi. Akraneskaupstaður hefur viljað mæta þessari eftirspurn með verulegri gatnagerð á næstu árum á Sementsreit, Dalbrautarreit og í Skógarhverfi. Jafnframt verður unnið með skipulag fyrir uppbyggingu við Smiðjuvelli og á Breið á árinu. Ætlunin er að fjölga lóðum fyrir allar tegundir íbúða svo sem einbýli, par/raðhús og fjölbýlishús. Markmiðið er að mæta þörf í öllum tegundum íbúða á næstu árum og stefnir sveitarfélagið að því að viðhalda núverandi hlutfalli milli sérbýla og fjölbýla til lengri tíma sem er 40% hlutfall sérbýla í sveitarfélaginu.