2. október 2021
Á sunnudaginn hélt Badmintonfélag Akraness hið árlega Gríslingamót félagsins og fór það fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Alls mættu til leiks um 40 keppendur á aldrinum sjö til tíu ára og auk keppenda frá ÍA tóku þátt krakkar frá TBR, Badmintonfélagi Hafnarfjarðar og Aftureldingu. Öllum keppendum var skipt í átta lið þvert á félög, spiluð var liðakeppni og léku krakkarnir undir merkjum Íslands, Póllands, Spánar, Belgíu, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Færeyja. Leiknar voru þrjár umferðir og var hart barist þar sem einhverjir létu skapið fara með sig í gönur sökum mikils keppnisskaps en allt fór vel að lokum. Allir keppendur fengu síðan medalíu með sér heim og voru afar sáttir við daginn eftir skemmtilegt mót.