Í tilkynningu í byrjun júlí frá Veitum varðandi framkvæmdir við Suðurgötu á Akranesi kom fram að þegar framkvæmdir hófust í janúar á síðasta ári leit út fyrir að um frekar einfalt verkefni væri að ræða, tengja átti nýjar byggingarlóðir inn á núverandi veitukerfi auk þess að leggja nýjan háspennustreng að væntanlegri spennustöð á Sementsreit.
„Þegar gröftur hófst í götu kom í ljós að gera þurfti meira því ljóst varð að einnig þurfti að endurnýja kaldavatnslagnir, leggja nýjar regnvatnslagnir og skipta um öll niðurföll. Slíkar breytingar kalla á nýja hönnun sem er tímafrek auk þess sem stærra verkefni tekur auðvitað lengri tíma. Að ljúka þessum verkum núna kemur í veg fyrir að við þurfum að grafa þarna aftur á næstu árum. Nú er gert ráð fyrir að þessum fyrri hluta framkvæmda á Suðurgötu ljúki í ágústmánuði. Þá verður hafist handa við seinni áfangann sem nær frá Merkigerði að Suðurgötu 117. Stefnt er að því að ljúka honum á fjórum mánuðum.“
Nú í byrjun árs 2023 er fyrri hluta framkvæmda á Suðurgötu ekki enn lokið og hefur því tafist eins og staðan er núna um rúma sex mánuði. Því ákvað Skessuhorn að senda nokkrar spurningar á Veitur til að kanna stöðu mála með framkvæmd verksins og ástæðu þessa tafa á verkinu. Hér er skriflegt svar Veitna við fyrirspurn Skessuhorns:
Nú er ljóst að fyrri hluti framkvæmda á Suðurgötu hefur nú tafist um sex mánuði og er enn í gangi. Er komin ný dagsetning á þann hluta og hver er ástæðan fyrir þessari miklu seinkun?
„Við gröft í Háholti kom í ljós slæmt ástand á fráveitu og þurfti að færa verkmörk töluvert í átt að Kirkjubraut og endurhanna þurfti lagnir. Því færðist töluverður þungi framkvæmdarinnar í Háholt sem ekki hafði verið gert ráð fyrir, og olli það töfum í Suðurgötu, áfanga 1. Lagðar voru nýjar lagnir og heimæðar endurnýjaðar og blandlögn skólps og regnvatns aflögð. Lögð var ný skólplögn og regnvatnslögn sem einnig var lögð í göngustíg á milli Háholts og Skagabrautar. Stöðva þurfti framkvæmdir í um það bil þrjá mánuði við Suðurgötu vegna endurhönnunar lagna. Upphaflega var gert ráð fyrir tveimur áföngum en Akranesbær og Veitur ákváðu að færa verkmörk að Skagabraut sökum þess hversu bágborið ástand var á lögnum sem og steypt yfirborð Suðurgötu. Þá verður vatnsveitulögn endurnýjuð og gömul asbest lögn aflögð.“
Verður þá byrjað strax á seinni áfanga og stenst það að honum ljúki á fjórum mánuðum miðað við seinkunina á fyrri áfanga?
„Verkinu í Suðurgötu er nú skipt í fjóra áfanga. Áfangi 1 sem nú er lokið náði frá Mánabraut og að Merkigerði. Áfangi 2 sem nú stendur yfir nær frá Merkigerði og að Suðurgötu 117. Áfangi 3 er frá Suðurgötu 117 og að Skagabraut. Áfangi 4 er þverun Skagabrautar til að tengja saman lagnir frá Suðurgötu og lagnir í stíg á milli Skagabrautar og Háholts. Gert er ráð fyrir að áfanga 2 ljúki um mánaðarmótin febrúar/mars 2023, áfanga 3 verði lokið um mánaðarmótin maí/júní 2023 og áfanga 4 verði lokið um miðjan júní 2023. Upphaflega var gert ráð fyrir því að uppgrafinn jarðveg væri hægt að endurnýta en svo reyndist ekki vera þar sem burðarhæfni reyndist ekki fullnægjandi og því hefur þurft að keyra burt jarðveg og flytja á staðinn burðarhæft efni. Frostakafli síðustu vikur hefur orðið þess valdandi að ekki hefur verið hægt að vinna í vatnslögnum frá 15.12. Ef veður setur ekki frekari strik í reikninginn má reikna með að fyrrnefndar dagsetningar standist.“
Nú hafa þessar framkvæmdir á Suðurgötu staðið yfir í meira en eitt ár og valdið ónæði fyrir íbúa í götunni. Sumir af þeim ekki komist leiðar sinnar frá húsum sínum vegna þrengsla nema með miklum erfiðleikum fyrir skurðum, vinnuvélum og öðru á vinnusvæðinu. Má búast við að íbúar fái einhverjar bætur vegna þessa ástands sem hefur staðið yfir í þennan langa tíma og hafið þið fengið margar kvartanir vegna þessa?
„Við skiljum vel að fólk sé þreytt á raskinu sem fylgir svona framkvæmdum og við höfum kappkostað við að upplýsa fólk eftir fremsta megni og vinna verkið í samstarfi við íbúa. Íbúar bæði við Háholt og Suðurgötu hafa verið vel upplýstir í gegnum ferlið og hefur samstarf við íbúana gengið vel. Nú er verið að endurnýja lagnir og heimæðar í Suðurgötu sem mun tryggja afhendingu á neysluvatni og rafmagni og losa íbúa við skólp með öruggum hætti. Það hefur ekki komið til bótagreiðslna þegar verkefni dragast eins og getur gerst.“