Skíðadeild Snæfellsness festi á dögunum kaup á snjótroðara, eins og sagt var frá í Skessuhorni á síðasta ári. Troðarinn er nýkominn til landsins og í síðustu viku var svo loksins komið að því að prufukeyra tækið. Troðarinn hefur hlotið nafnið Inga, nefndur eftir Ingibjörgu S. Kristjánsdóttur, eiginkonu Guðmundar Runólfssonar heitins, en hún hefði orðið 100 ára 3. mars á síðasta ári.
Það hefur töluvert snjóað undanfarin misseri þó svo að mestur snjórinn sé niðri í bænum sjálfum og eitthvað minna um snjó í fjallinu. Það stoppaði þó ekki spennta sjálfboðaliða í að reyna að troða þann litla snjó sem var í brekkunni til að reyna að festa hann ef það skyldi snjóa meira. Því miður var ekki hægt að opna lyftuna en það vantar aðeins meiri snjó til þess.