Fyrstu deildar lið Snæfells og úrvalsdeildarlið Hauka áttust við í undanúrslitum VÍS bikarsins í körfuknattleik í gær og fór viðureignin fram í Laugardalshöll. Leikurinn byrjaði af miklum krafti og liðin skiptust á að ná forskoti. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta í stöðunni 16:16 skelltu Haukakonur í lás, spiluðu hörkuvörn og skoruðu síðustu ellefu stig leikhlutans, staðan allt í einu orðin 27:16 fyrir Haukum og ljóst að erfiður róður var framundan hjá Snæfelli. Það varð raunin því Haukakonur létu kné fylgja kviði og um miðjan annan leikhluta var forysta þeirra komin yfir 20 stig, 45:24. Stigahæsti leikmaður Snæfells í leiknum, hin bandaríska Chea Rael Whitsitt, gerði hvað hún gat til að halda Snæfelli inni í leiknum en vantaði aðstoð liðsfélaganna sem náðu ekki að láta til sín taka. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 55:32 Haukum í vil og úrslit leiksins nánast ráðin.
Seinni hálfleikurinn var áfram á svipuðum nótum og þrátt fyrir að Snæfell hafi neitað að gefast upp höfðu Haukar mun fleiri vopn í vopnabúri sínu en hið unga lið Snæfells. Undir lok þriðja leikhluta var nánast öll von um endurkomu Snæfells úti enda munurinn á milli liðanna kominn í 28 stig, 80:52. Í fjórða og síðasta leikhluta voru Snæfellskonur ekkert á því að láta valta yfir sig. Bekkur Snæfells og stuðningsmenn þeirra sem voru þar fyrir aftan lifðu sig vel inn í leikinn og létu vel í sér heyra. Þessi stuðningur gaf liðinu smá aukakraft en gæðin hjá Haukum skiluðu sér í mun betri skotnýtingu eða 51% gegn 36% hjá Snæfelli og þá settu Haukakonur niður 13 þriggja stiga körfur á móti aðeins fjórum frá Snæfelli í leiknum. Lokatölur leiksins voru 98:62 Haukum í hag og annað árið í röð sem Snæfell tapar í undanúrslitum í VÍS bikarnum en í fyrra urðu þær að lúta í lægra haldi fyrir Breiðabliki.
Hjá Snæfelli var Cheah Rael Whitsitt stigahæst með 33 stig og 10 fráköst, Preslava Koleva var með 16 stig og Rebekka Rán Karlsdóttir með 7 stig. Hjá Haukum var Tinna Guðrún Alexandersdóttir, fyrrum leikmaður Snæfells, með 26 stig og þær Sólrún Inga Gísladóttir og Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir með 15 stig hvor.
Það er þó ljóst að þessi leikur fer í reynslubankann hjá hinu unga og efnilega liði Snæfells sem nú getur farið af fullum krafti í það að reyna að ná sæti á meðal þeirra bestu í Subway deild kvenna. Næsti leikur Snæfells í deildinni er á móti sameiginlegu liði Aþenu/Leiknis/UMFK miðvikudaginn 18. janúar í Stykkishólmi og hefst klukkan 19.15.