Í dag, miðvikudaginn 11. janúar, ætlar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vera með skrifstofu sína í Borgarbyggð. Heldur hún áfram ferð sinni um landið sem hún hóf á síðasta ári. Á hverri starfsstöð er ráðherra með opna viðtalstíma þar sem allir áhugasamir eru velkomnir í stutt og milliliðalaust spjall um málefni á borði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Þá eru fyrirtækjaheimsóknir einnig hluti af dagskrá ráðherra.
„Hugmyndin kviknaði þegar ég var að hugsa hvernig ráðuneyti sem væri búið til árið 2022 myndi starfa. Með þessu kynnist ég enn betur starfsemi sem tengist ráðuneytinu um allt land og fæ tækifæri til að prófa að starfa annars staðar en í Reykjavík,“ segir ráðherra. Á nýliðnu ári var Áslaug Arna meðal annars með heimsóknir í Snæfellsbæ og á Akranesi.