Ný útgáfa af ábendingagátt fór í loftið fyrir helgi á vef Borgarbyggðar. Um er að ræða nýtt viðmót sem hefur verið í þróun í nokkurn tíma. Nýja ábendingagáttin er notendavænni en fyrri útgáfa og gerir íbúum kleift að merkja inn staðsetningar og einnig er hægt að setja inn myndir. Auk þess virkar nýja viðmótið vel í snjalltækjum og því auðvelt að grípa símann og senda ábendingu með einföldum hætti. Þá er einnig nýtt og öflugt bakendakerfi sem tekur á móti ábendingum sem gerir það að verkum að starfsfólk þjónustuvers getur brugðist hratt við ábendingum og komið þeim á framfæri. Kerfið sýnir einnig hvar ábending er stödd innan stjórnsýslunnar sem gerir eftirfylgni markvissari en áður. Starfsfólk þjónustuvers flokkar ábendinguna og kemur henni til ábyrgðaraðila. Það getur verið starfsmaður hjá sveitarfélaginu eða í einhverjum tilvikum samstarfsaðili eins og Veitur, Vegagerðin og svo framvegis. Ábendingagáttin er á sama stað og áður inni á heimasíðu Borgarbyggðar.