Frá því viku af desember hefur verið nánast stöðugt frost um vestanvert landið og mælst allt að 25 gráðum t.d. í uppsveitum Borgarfjarðar suma daga. Í fyrstu fraus á auða jörð og því náði klakinn víða að hlaupa langt niður. Á meðfylgjandi mynd eru starfsmenn Veitna að skipta um bút í neysluvatnslögn að einu hesthúsanna á Æðarodda á Akranesi þar sem frosið hafði í vatnsinntaki. Sögðu þeir þetta þriðja hesthúsið í hverfinu sem vatnið hefði frosið. Lögnin sem um ræðir er á sjötíu sentimetra dýpi, en algengt er að neysluvatnslagnir séu einmitt lagðar á 70-100 cm undir yfirborðinu. Það einfaldlega dugar ekki til þegar svona háttar til í veðráttunni. Sambærileg vandamál hafa samkvæmt heimildum Skessuhorns komið upp víða um vestanvert landið á síðustu vikum þar sem lagnir eru of grunnt í jörðu. Við þessar aðstæður getur verið gott að láta vatnið sírenna í húsum.