Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 1,7 milljón árið 2022 eða um einni milljón fleiri en árið 2021. Þetta er niðurstaða talningar Ferðamálastofu og Isavia. Aukningin milli ára nemur 146%. Í kjölfarið á afléttingu ferðatakmarkana í febrúar 2022 tók ferðamönnum að fjölga á ný en um 73% brottfara árið 2022 voru á síðari hluta ársins. Bandaríkjamenn voru ríflega fjórðungur allra brottfara, Bretar 14% og Þjóðverjar 8%.
„Leita þarf sex ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega eða til ársins 2016 en þá mældist fjöldi þeirra tæplega 1,8 milljón. Fjöldi brottfara mældist mestur á árunum 2017 til 2019 eða á bilinu tvær til 2,3 milljónir,“ segir í frétt Ferðamálastofu. Á nýbyrjuðu ári er gert ráð fyrir gríðarlegri fjölgun ferðamanna hér á landi og að óbreyttu verði nýtt met slegið.