Verkalýðsfélag Akraness birti nýlega á heimasíðu sinni frétt þar sem fram kemur að félagið búi yfir öflugum sjúkrasjóði þar sem félagsmönnum er boðið upp á margvíslega styrki úr sjóðnum. Á árinu 2022 greiddi sjúkrasjóðurinn um 100 milljónir í formi sjúkradagpeninga og styrkja til félagsmanna en tæplega 1400 félagsmenn notfærðu sér þá styrki sem VLFA býður sínum félagsmönnum upp á, sem er 46% þeirra. Þá segir að eins og alltaf séu hæstu greiðslurnar úr sjúkrasjóðnum vegna sjúkradagpeninga og námu þær greiðslur um 52 milljónum króna í fyrra, en rétt til greiðslu sjúkradagpeninga eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa veikindarétti hjá sínum atvinnurekanda og eru áfram veikir.
Vilhjálmur Birgisson, eða Villi Bigg eins og hann er yfirleitt kallaður, er formaður félagsins og blaðamaður Skessuhorns kom við hjá honum á skrifstofu hans í húsnæði VLFA við Þjóðbraut 1 á nýju ári til að ræða þessi mál og kjaraviðræður síðustu vikna. Villi er einnig formaður Starfsgreinasambandsins sem er landssamband allra verkalýðsfélaga verkafólks á Íslandi.
Heilsíðuviðtal við Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness er í nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í dag.