Enn er leitað að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem lögreglan á Vesturlandi lýsti eftir í gær. Síðast er vitað um ferðir Modestas í Borgarnesi laugardaginn 7. janúar. Björgunarsveitir voru kallaðar út til leitar klukkan 14 í gær og var leitað fram á nótt í nágrenni Borgarness án árangurs. Leit fór af stað aftur núna í morgunsárið en einnig er lögreglan að skoða upptökur úr öryggismyndavélum verslana í Borgarnesi þar sem mögulegt er að Modestas hafi komið.
Við leitina flaug þyrla Landhelgisgæslunnar meðfram ströndinni allt frá vestur Mýrum, um Borgarnes og suður fyrir Borgarfjarðarbrú.
Á meðfylgjandi myndbandi sem Ómar Örn Ragnarsson tók seinni partinn í gær er þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi yfir Brákarsundi.
Þeir sem hafa séð til Modestas eða vita hvar hann kann að vera niðurkominn eru beðnir að láta lögregluna á Vesturlandi vita í síma 444-0300 eða setja sig í samband við Neyðarlínuna í síma 112.