Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, hafa undirritað samning um stofnun rannsóknaseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum sem starfrækt verður á Bifröst. „Markmið samningsins er að efla jákvæða byggðaþróun og styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum sem stuðla að hlutlægri og faglegri umræðu og leiða til betri stefnumótunar og ákvarðanatöku. Jafnframt að efla nám og fræðslu um byggða- og sveitarstjórnarmál,“ segir í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu.
Samningurinn gildir til þriggja ára eða til ársloka 2025. Árlegt framlag ráðuneytisins verður 12 milljónir króna sem kemur annars vegar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hins vegar í gegnum byggðaáætlun. Margrét Jónsdóttir Njarðvík segir að skólinn muni leggja áherslu á að skapa þverfaglegan og opinn samstarfsvettvang um byggða- og sveitarstjórnarmál með sérstaka áherslu á samstarf við ráðuneytið, Byggðastofnun, Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.