Akraneskaupstaður bregst við og býður til viðræðna um víðtækt samstarf
Meirihluti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar hafnaði því á fundi sínum 14. desember síðastliðinn að verða við ósk Akraneskaupstaðar, frá því í október, þar sem bærinn fór fram á leyfi til að kaupa 42 hektara óbyggðs lands úr jörðinni Akrakoti í Hvalfjarðarsveit og færa sveitarfélagamörkin sem því nemur. Land Akrakots liggur þétt sunnan við sveitarfélagamörkin og umlykur m.a. golfvöllinn á Akranesi. Ef landið hefði fengist keypt var ætlun Akraneskaupstaðar að skipuleggja þar lágreista íbúðabyggð. Kaupsamningur Akraneskaupstaðar við eigendur Akrakots var með ákveðnum fyrirvörum m.a. um að samþykki Hvalfjarðarsveitar fengist fyrir því að sveitarfélagamörk á milli Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar yrði breytt með þeim hætti að land jarðarinnar falli innan sveitarfélagamarka Akraness þ.e. allt landsvæði ofan við býlin Ásfell og Fögrubrekku. Eigendur Akrakots verða því að óbreyttu af sölunni. Tveir af sjö fulltrúum í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar bókuðu við afgreiðslu málsins að þeir sæju enga meinbugi á því að leyfa söluna. Í kjölfar þessarar höfnunar hefur Akraneskaupstaður nú boðið Hvalfjarðarsveit til víðtæks samstarfs.
Í afgreiðslu meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá því í desember segir m.a: „Meginreglan er sú að óheimilt er að breyta mörkum sveitarfélaga. Þó er til undanþága þess efnis og er mögulegt fyrir sveitarfélög að gera samning sín á milli um breytingar og þá með samþykki ráðherra. Engin skylda er til þess að ganga til slíkra samninga og hefur sveitarfélagið fullan rétt til þess að synja samningaviðræðum um slíkt. Umfram allt ber sveitarfélaginu skylda til að skoða í hvívetna hvort hagsmunum sveitarfélagsins sé betur borgið með því að gera slíkan samning.“
Afgreiðslan kom á óvart
Eins og margir þekkja er Akranes landlítið sveitarfélag miðað við íbúafjölda og hratt gengur á hentugt byggingarland. Einungis Seltjarnarnesbær er þéttbýlli af sveitarfélögum hér á landi. Í erindi Akraneskaupstaðar til Hvalfjarðarsveitar í haust kemur fram að beiðni um kaup eða makaskipti á hluta á landi vegna mögulegrar uppbyggingar á svæðinu sé einnig mikilvæg til að gera góða vegtengingu við Akraneskaupstað. „Þessum beiðnum var hafnað af fimm af sjö sveitarstjórnarfulltrúum Hvalfjarðarsveitar 14. desember síðastliðinn. Kom þessi afgreiðsla verulega á óvart og þá sérstaklega í ljósi mikils samstarfs sveitarfélaganna. Fengu sveitarstjórnarfulltrúar Hvalfjarðarsveitar gögn frá Akraneskaupstað um mikilvægi þessa landsvæðis til framþróunar Akraness í góðri sátt við Hvalfjarðarsveit. Sameiginlegt skipulag á þessu svæði ætti að duga næstu áratugina,“ segir í yfirlýsingu sem Akraneskaupstaðaður birti í morgun.
Bjóða til víðtækara samstarfs
Með nýju bréfi hefur Akraneskaupstaður nú boðið Hvalfjarðarsveit til viðræðna um víðtækt samstarf. Þær viðræður myndu m.a. snúast um mögulegar nýjar vegtengingar frá þjóðvegi sem búi til betri vegtengingu inn í nýtt hverfi og þéttbýliskjarna við land Kross í Hvalfjarðarsveit. Ávinningur af þessu væri að losað yrði um umferð sem nú fer um Innnesveg og yrði einnig mun betri vegtenging fyrir skólaakstur. Í þeim viðræðum yrði einnig rætt m.a. um samstarf um uppbyggingu leikskóla sem myndi bæði þjóna byggð Akraness og Hvalfjarðarsveitar á þessu svæði. Einnig viðræður um samstarf þess efnis að börn á aldrinum 10-16 ára í Hvalfjarðarsveit geti notað frístundamiðstöð Þorpsins á Akranesi og ef áhugi væri yrði samstarfið gagnkvæmt. Þá yrði rætt um samstarf um málefni fatlaðra en metnaðarfull uppbyggingaráform eru í þeim málaflokki á Akranesi til að tryggja samfélag án aðgreiningar fyrir fatlað fólk og aðra snertifleti sem auki þjónustu við íbúa á svæðinu svo sem íþróttastarf.
Samstarf um nýtt skipulag
Varðandi mögulega íbúðabyggð í landi Akrakots í Hvalfjarðarsveit leggur Akraneskaupstaður nú til að sameiginlega verði farið í vinnu við nýtt skipulag. „Hér má hugsa sér að skipuleggja heildstætt óbyggða hluta Akrakots annars vegar og núverandi byggð Hvalfjarðarsveitar, þ.m.t. landsvæðið neðan Innnesvegar. Sjá mætti fyrir sér íbúabyggð þar sem Akranesmegin væru u.þ.b. 1.500 íbúar og sömuleiðis um 1.500 íbúar á svæði Hvalfjarðarsveitar. Hagræðið fyrir bæði sveitarfélögin að byggja upp sameiginlega innviði fyrir u.þ.b. 3.000 íbúa byggð er augljós báðum sveitarfélögum til hagsbóta. Einnig boð um samtal um alla samstarfsmöguleika sem ávinningur gæti verið af fyrir íbúa beggja sveitarfélaga.“
Íbúðabyggð með sameiginlegum þjónustukjörnum
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi segir að með beiðni Akraneskaupstaðar um víðtækt samstarf sé kaupstaðurinn að huga að langtíma þróun sveitarfélagsins sem skipti verulegu máli. „Við vonum að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar endurskoði fyrri ákvörðun sína frá í desember og opni á samtal við okkur í þágu íbúa beggja sveitarfélaga. Við teljum það skyldu okkar að nýta fjármuni rétt og samstarf sveitarfélaga í því tilliti er sérstaklega mikilvægt. Viljum við með þessu stíga skref sem er umfangsmeira en þekkist almennt í samstarfi sveitarfélaga, þar sem þróuð er íbúðabyggð með sameiginlegum þjónustukjörnum. Jafnframt að við sameiginlega horfum til þess að stöðugt eru að aukast kröfur á sveitarfélög t.d. í skólaþjónustu, frístundastarfi, íþróttastarfi, í málefnum fatlaðra og fyrir flóttafólk. Við leggjum til stóraukið samstarf sem við trúum að skipti miklu máli til að auka gæði þjónustu fyrir íbúa beggja sveitarfélaga,“ segir Sævar Freyr. Að lokum segir í tilkynningu Akraneskaupstaðar að skorað sé á Hvalfjarðarsveit að opna á uppbyggilegar viðræður um málefni þetta og gefa íbúum tækifæri að koma fram sínum sjónarmiðum.“
Eigendur vilja að sveitarstjórn endurskoði afstöðu sína
Nýtt erindi Akraneskaupstaðar til Hvalfjarðarsveitar er nú aðgengilegt lesendum á vef bæjarins sem og bréf eigenda Akrakots til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem skrifað er í kjölfar þess að sveitarfélagið hafnaði því að landið fengist selt Akraneskaupstað og sveitarfélagamörk færð. Í bréfinu harma eigendur Akrakots þessa ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar og skrifa: „Með vísan til framangreinds skorum við á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að endurskoða afstöðu sína og taka málið upp að nýju, mögulega með viðræðum við Akraneskaupstað í millitíðinni. Málið varðar okkur landeigendur mjög miklu og því nauðsynlegt að ekki sé kastað til þess höndunum heldur sé málið skoðað raunverulega m.t.t. þeirra hagsmuna sem uppi eru í málinu fyrir alla aðila, þ.e. okkur landeigendur, Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstað.“
Mál sem þetta ekki einsdæmi
Mál sem þetta milli Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar hafa áður komið inn á borð sveitarfélaga í grennd við ört vaxandi byggð. Dæmi eru um farsælt samstarf þar sem sveitarfélagamörk hafa verið færð í góðu samstarfi beggja aðila og má þar nefna Garðabæ og Kópavog í því samhengi. Hins vegar eru einnig dæmi um hið gagnstæða. Má þar nefna erindi Árborgar til Flóahrepps fyrir nokkru, þar sem þess var farið á leit að eignarlönd þess austan við Selfoss féllu undir Árborg. Samþykkt var með öllum atkvæðum sveitarstjórnar Flóahrepps að hafna erindinu svo og erindi Árborgar um tilfærslu sveitarfélagamarka. Þá hafa verið deilur milli Hveragerðisbæjar og Ölfuss, þar sem síðarnefnda sveitarfélagið neitaði tilfærslu sveitarfélagamarka og ákvað að hækka kostnaðarþátttöku Ölfuss í sameiginlegum verkefnum. Hafa ber þó í huga að aðstæður á Suðurlandi eru nokkuð annars eðlis því ofangreind sveitarfélög hafa ekki átt í viðlíka víðtæku samstarfi og Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit á undanförnum árum í fjölda málaflokka, þar sem Akranes hefur tekið að sér ýmsa þjónustu með samningi við Hvalfjarðarsveit.