Hamar/Þór og Snæfell áttust við í 1. deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn og fór leikurinn fram í Hveragerði. Snæfell, sem lék án fyrirliðans Rebekku Ránar Karlsdóttur sem var veik, byrjaði mun betur í leiknum og komst í 3:12 eftir rúmar fimm mínútur. Þá fóru heimakonur loks í gang og staðan 13:18 Snæfelli í vil við lok fyrsta leikhluta. Hamar/Þór náði að minnka muninn í eitt stig strax í byrjun annars leikhluta en síðan tók Snæfell yfir í leiknum. Þær náðu mest tíu stiga forystu en höfðu sex stig í forskot þegar flautað var til hálfleiks, staðan 26:32.
Snæfell komst fljótlega í tíu stiga forystu í þriðja leikhluta, 30:40, en síðan tóku heimakonur smá kipp og náðu að minnka muninn í fjögur stig um miðjan leikhlutann, 41:44. Nær komust þær þó ekki og Snæfell leiddi með fimm stigum fyrir síðasta leikhlutann, staðan 47:52 fyrir Snæfelli. Um miðjan fjórða leikhluta var Snæfell aftur komið með tíu stiga forystu, 56:66, en með mikilli seiglu náði Hamar/Þór að jafna úr tveimur vítaskotum þegar hálf mínúta var eftir af leiknum. Hamar/Þór fékk tækifæri á að vinna leikinn en skot Jennu Mastellone rataði ekki ofan í körfu gestanna og því ljóst að liðin voru á leið í framlengingu, lokatölur í venjulegum leiktíma 68:68. Hamar/Þór var síðan sterkari í framlengingunni og vann að lokum sigur, 75:71, en svekkjandi tap fyrir Snæfell sem hafði frumkvæðið nánast allan leikinn.
Stigahæst hjá Snæfelli var Cheah Rael Whitsitt með 24 stig og 15 fráköst, Preslava Koleva var með 17 stig og Ylena Maria Bonnett með 12 stig. Hjá Hamar/Þór var Emma Hrönn Hákonardóttir með 22 stig, Jenna Mastellone var með 20 stig og 15 fráköst og Hildur Björk Gunnsteinsdóttir með 13 stig.
Næsti leikur Snæfells í deildinni er á móti sameiginlegu liði Aþenu/Leiknis/UMFK miðvikudaginn 18. janúar í Stykkishólmi og hefst klukkan 19.15. Á morgun leika þær í undanúrslitum VÍS bikarsins á móti Haukum í Laugardalshöllinni og hefst viðureignin klukkan 17.15. Sigurvegari þeirrar viðureignar mætir síðan annað hvort Stjörnunni eða Keflavík í úrslitum á laugardaginn klukkan 13.30.