Hrunamenn og Skallagrímur mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og fór leikurinn fram á Flúðum. Heimamenn byrjuðu betur, komust í 5:0 og 8:2 en þá vöknuðu gestirnir og komu sér inn í leikinn. Þegar rúmar sex mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta í stöðunni 14:14 skoraði Skallagrímur tíu stig í röð og leiddi með átta stigum við flautið, 18:26. Hrunamenn reyndu að krafsa í Skallagrímsmenn í öðrum leikhluta en gekk illa að minnka forskot gestanna. Um miðjan leikhlutann var Skallagrímur í góðum málum með ellefu stiga forystu, 27:38, og hélt henni fram að hálfleik, staðan 38:50 fyrir Skallagrími.
Í þriðja leikhluta voru heimamenn alltaf að elta en gekk ekkert að minnka muninn að neinu ráði, um tæpan miðjan leikhluta var staðan 50:58 og við lok hans var forysta Skallanna níu stig, 59:68. Sömu sögu er hægt að segja um síðasta fjórðunginn, hvað sem Hrunamenn reyndu þá voru Skallagrímsmenn alltaf skrefinu á undan og hleyptu þeim aldrei nálægt. Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum náðu Hrunamenn að minnka muninn í fimm stig, 74:79, en nær komust þeir ekki og Skallagrímur vann að lokum öruggan og sanngjarnan sigur, lokatölur 79:86.
Í umfjöllun um leikinn á karfan.is segir að ágætt flæði hafi verið í leik Skallagríms og greinileg samstaða innan liðsins. „Leikmenn treysta hver öðrum og vita nákvæmlega hvað þeir eiga að gera á vellinum. Þjálfarinn ungi, Atli Aðalsteinsson, hefur góða stjórn á liði sínu og nær því besta úr leikmönnunum. Bræðurnir Björgvin Hafþór og Bergþór Ægir léku ágætlega, Davíð Guðmundsson átti góðan leik, einkum í seinni hálfleik og aðrir fá að blómstra á sínum styrkleika og fá aðstoð liðsfélaganna þar sem hennar þarf við. Bestur í liði Skallagríms var Keith Jordan Jr. en hann átti virkilega góðan leik.“
Hjá Skallagrími var Keith Jordan Jr. stigahæstur með 29 stig og þeir Davíð Guðmundsson og Milorad Sedlarevic með 15 stig hvor. Hjá Hrunamönnum var Ahmad Gilbert með 27 stig og 21 frákast, Samuel Burt með 23 stig og og Yngvi Freyr Óskarsson með 8 stig.
Næsti leikur Skallagríms er gegn liði Hamars mánudaginn 16. janúar í Hveragerði klukkan 19.15.