
Davíð Guðmundsson átti góðan leik á móti Hrunamönnum. Ljósm. glh
Skallagrímur lagði Hrunamenn
Hrunamenn og Skallagrímur mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og fór leikurinn fram á Flúðum. Heimamenn byrjuðu betur, komust í 5:0 og 8:2 en þá vöknuðu gestirnir og komu sér inn í leikinn. Þegar rúmar sex mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta í stöðunni 14:14 skoraði Skallagrímur tíu stig í röð og leiddi með átta stigum við flautið, 18:26. Hrunamenn reyndu að krafsa í Skallagrímsmenn í öðrum leikhluta en gekk illa að minnka forskot gestanna. Um miðjan leikhlutann var Skallagrímur í góðum málum með ellefu stiga forystu, 27:38, og hélt henni fram að hálfleik, staðan 38:50 fyrir Skallagrími.