Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 5. janúar síðastliðinn var lagt fram erindi frá leikskólastjórum Klettaborgar, þeim Steinunni Baldursdóttur og Dórótheu Elísdóttur, þar sem þær óskuðu eftir upplýsingum um fyrirætlanir sveitarfélagsins varðandi húsnæði leikskólans Klettaborgar á árinu 2023.
Í erindinu segir: „Á undanförnum árum (og áratugum) hefur sífellt verið óskað eftir endurbótum varðandi starfsaðstæður svo sem fataklefa, undirbúnings- og fundaraðstöðu, salerni, geymslupláss, aukið rými fyrir börn/kennara og fleira. Rétt er að geta þess að í kosningum til sveitarstjórnar síðastliðið vor lýstu frambjóðendur allra framboða vilja til úrbóta. Í foreldrakönnunum undanfarinna ára hafa ítrekað komið fram athugasemdir við aðstæður barna og kennara í leikskólanum en jafnframt verið lýst mikilli ánægju með innra starf leikskólans. Niðurstöður starfsmannakannana hafa verið þær sömu. Heilbrigðiseftirlitið og Vinnueftirlitið hafa í gegnum árin gert athugasemdir, gripið hefur verið til tímabundinna aðgerða og lausnaleitin verið mjög vel nýtt. Nú lesum við í fundargerðum sveitarfélagsins að eyða eigi talsverðum fjármunum í gámaviðbætur í Uglukletti og langar okkur því til að fá upplýsingar um hvort áfram eigi að láta Klettaborg búa við óviðundandi aðstæður og fjársvelti í viðhaldi.“
Í svari byggðarráðs í fundargerð segir meðal annars að húsnæði Klettaborgar sé 45 ára gamalt og viðbygging við skólann tæplega 20 ára gömul. „Á árinu 2022 hefur þegar verið gjaldfærður kostnaður vegna framkvæmda við Klettaborg upp á samtals 6,6 milljónir króna á húsi og lóð. Hluti viðhalds var vegna leka sem ekki fékkst bættur frá tryggingafélagi. Á yfirstandandi ári er áætlað að ráðstafa fimm milljónum króna til viðhalds á Klettaborg. Ekki er í þeirri fjárhæð miðað við óvænt tjón líkt og átti sér stað í fyrra. Miðað við það vonast byggðarráð til þess að heldur verði bætt í viðhald á húsnæði Klettaborgar á milli ára og stefnan að það viðhald verði unnið í góðu samstarfi við stjórnendur skólans, líkt og verið hefur.
Byggðarráð telur að ákvörðun um uppbyggingu njóti skilnings og að um hana sé sátt í skólasamfélaginu í Borgarbyggð. Með færanlegum kennslustofum og síðar stækkun Uglukletts er markmiðið að vinna á biðlista sem hefur verið að myndast og koma til móts við fjölgun barna á næstu árum. Sú lausn var metin hagstæðust með tilliti til stækkunarmöguleika, tækifæris til fjölgunar starfsfólks og staðsetningar í stækkandi íbúðahverfi.“