Gul viðvörun er í gildi vegna veðurs allt frá Breiðafirði í vestri, um Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og Norðurland eystra í dag. Fyrir Breiðafjörð er viðvörun í gildi til hádegis á morgun, mánudag: „Þar verður norðan hvassviðri eða stormur, 18-23 m/s og snjókoma með köflum. Einnig má búast við skafrenningi með lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum. Varasamt ferðaveður,“ segir í lýsingu Veðurstofunnar. Í dag verða eftirfarandi vegir á óvissustigi vegna veðurs og þar gæti komið til lokana, skv. Vegagagerðinni: Holtavörðuheiði, Brattabrekka, Svínadalur, Fróðárheiði og Vatnaleið. Krapi er á Mýrum en ófært er um Staðarsveit og Útnesveg. Áætlunarferð Baldurs var flýtt í morgun yfir Breiðafjörð vegna veðurspár, en hann sigldi kl. 8 frá Stykkishólmi og kl. 11 frá Brjánslæk.