Undir lok ársins óskaði Skessuhorn eftir því að íbúar í landshlutanum sendu inn tilnefningar um hver ætti að hljóta sæmdarheitið Vestlendingur ársins 2022. Hver væri sá íbúi í landshlutanum sem hefði á einhvern hátt skarað fram úr á árinu. Þetta er í 25. skipti sem Skessuhorn gengst fyrir þessari útnefningu og í áranna rás hefur fjöldi fólks víðs vegar um landshlutann hlotnast þessi heiður af ýmsum ástæðum. Viðbrögð íbúa létu að þessu sinni ekki á sér standa og bárust á annað hundrað tilnefningar um ríflega fjörutíu einstaklinga eða hópa. Vestlendingur ársins 2022 er Steinunn Árnadóttir í Borgarnesi. Steinunn er kennari við Tónlistarskólann á Akranesi og organisti í Borgarneskirkju. Í frítíma sínum stundar hún hestamennsku. Um mitt þetta ár varð Steinunn þess áskynja að hross í hesthúsi í Borgarnesi byggju við þröngan aðbúnað, innilokuð og vanfóðruð. Lögum samkvæmt tilkynnti hún um grun sinn til Matvælastofnunar sem samkvæmt sömu lögum ber að ganga hratt og örugglega í málið. Eftir að Steinunni fannst ekki vera brugðist við sem skyldi gerði hún málið opinbert síðla sumars og kallaði eftir viðbrögðum opinberra aðila og stofnana. Fylgdi hún málinu fast eftir og krafðist þess að brugðist yrði við slæmum aðbúnaði skepna sem voru í umsjón sama fólksins. Málið vatt upp á sig því sama fólkið reyndist auk a.m.k. fjörutíu hrossa vera með fjölda nautgripa og sauðfjár í sinni vörslu. Lesendur Skessuhorns og landsmenn þekkja framvindu þessara mála.
Steinunn Árnadóttir fékk í senn langflestar tilnefningar sem Vestlendingur ársins og því var fylgt eftir við ritstjórn Skessuhorns með símtölum og tölvupóstum þar sem hún er m.a. útnefnd sem „Málsvari málleysingjanna“ og „Rödd dýranna.“ Undir lok nýliðins árs heimsótti ritstjóri Skessuhorns Steinunni á annan af tveimur vinnustöðum hennar; Borgarneskirkju. Rætt var við Steinunni og henni færð blóm og áritaður kristalsvasi sem þakklætisvottur.
Alin upp á mannmörgu sveitaheimili
Fyrst að uppruna Steinunnar. „Ég er fædd 1965 og uppalin á Brennistöðum í Flókadal, fjórða í röð fimm barna foreldra minna Árna Theodórssonar og Vigdísar Sigvaldadóttur. Heimilið var alla tíð mjög mannmargt, því foreldrar mínir höfðu það sem hluta af sinni vinnu að taka börn í sveit og sum þeirra komu til þeirra í varanlegt fóstur. Störfuðu þau náið með félagsmálayfirvöldum í Reykjavík, en mörg þessara barna sem dvöldu heima höfðu búið við félagsleg eða uppeldisleg vandamál heima fyrir. Í búskapartíð sinni tóku þau þannig um eða yfir 200 fósturbörn til lengri eða skemmri dvalar. Fimm þessara barna urðu fósturbörn foreldra minna og áttu heima eftir það á Brennistöðum og eru því uppeldissystkini mín. Samhliða ráku foreldrar mínir blandað bú með kúm, kindum og hrossum. Ferðaþjónusta var einnig á bænum og til að krydda flóruna í bústofninum og gleðja heimilisfólk og gesti voru allskyns óvenjuleg húsdýr að auki, sem í dag er jafnvel bannað að halda, svo sem grís, refur, gæs, hrafn og önd. Ég ólst því upp á líflegu og mannmörgu sveitaheimili, sótti barnaskóla á Kleppjárnsreykjum á veturna en hleypti heimdraganum á unglingsaldri til að sækja nám í Reykjavík.“
Tónlistin heillaði
Steinunn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og fór eftir það í Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem píanókennari 1991. „Ég varð eftir það kantor frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar, en í því námi er farið dýpra í ýmis atriði organistastarfsins, svo sem kórstjórn og fleira. Á síðari námsárum mínum bjó ég í húsi við Andakílsárvirkjun ásamt þáverandi eiginmanni mínum, Gunnari Gauta Gunnarssyni dýralækni. Á þeim tíma ók ég suður til náms. Saman eigum við Gunnar Gauti þrjú uppkomin börn og þrátt fyrir að hafa skilið að skiptum árið 2004 erum við bestu vinir í dag.“ Steinunn hefur verið organisti í Borgarnesi frá 2004 og undanfarin ár kennt píanóleik við Tónlistarskólann á Akranesi, en hún býr í Borgarnesi.
Þakklæti en um leið hryggð
„Það er með þakklæti sem ég tek við þessari viðurkenningu frá íbúum á Vesturlandi og ykkar á Skessuhorni,“ sagði Steinunn; „en um leið er það líka með hryggð. Það er mér hryggð að vita að árið 2022 hafi staðan verið sú að undir „eftirliti“ starfsmanna Matvælastofnunar sé látin líðast vítaverð meðferð á dýrum. Við köllum þetta dýraníð! Og þeir sem láta dýrin líða eru dýraníðingar,“ segir Steinunn með festu.
„Ég bý vel að þeirri reynslu að hafa búið með Gunnari Gauta dýralækni. Ég fylgdist náttúrlega vel með því hvað hann var að fást við í störfum sínum sem dýralæknir og honum er og hefur alla tíð verið mjög annt um að velferð dýra væri í sem allra besta lagi. Það reyndi mjög á hann þegar eitthvað var ábótavant á bæjum sem varð til þess að dýralæknar og aðrir embættismenn þurftu að skerast í leikinn og beita stjórnvaldsaðgerðum. Á þessum árum var lagaumgjörðin um dýravelferð hins vegar önnur en hún er í dag. Í kjölfar erfiðra mála kom hann að því ásamt Stefáni Skarphéðinssyni þáverandi sýslumanni hér í Borgarfirði að rita drög að lögum um dýravelferð sem nú eru í gildi. Þannig nýttu þeir reynslu sína úr störfum og hvöttu til þess að lagaumgjörðin yrði bætt.“
Lögin eru skýr
Steinunn segir að hún meti það svo að núverandi lög um dýravelferð séu almennt góð, það skorti eingöngu að allir hlutaðeigandi fari eftir þeim og full mikið sé um að beitt sé túlkunaratriðum þar sem eigendur eða umráðamenn eru látnir njóta vafans. Þannig er réttur einstaklings sem heldur dýr mikill og dæmi um að þeir fái of langan tíma til að njóta vafans og þá á kostnað dýranna sem oft þurfa tafarlausa hjálp séu umráðamenn þeirra að bregðast þeim. „Í lögunum er almenningi gert skylt að tilkynna ef grunur er um illa meðferð á skepnum, vanfóðrun eða einhvers konar dýraníð. Það er hins vegar skilvirkni kerfisins sem er ábótavant, það held ég að flestir séu sammála um í dag og þetta mál sem kom upp hér í Borgarnesi og Borgarfirði á nýliðnu ári hefur opnað augu almennings. Mín skoðun, eftir þetta ár, er sú að Matvælastofnun er rúin trausti og virðist eiga afskaplega erfitt með að bregðast við erfiðustu málum er varða dýravelferð. Embættismenn hafa jafnvel verið uppvísir af því að segja ósatt. Mér finnst standa upp úr í þessu máli að ef sendar eru ítrekað formlegar fyrirspurnir eða ábendingar að ekkert svar berst, ekki einu sinni „erindi móttekið.“ Þvert á móti hef ég skynjað andúð og jafnvel fyrirlitningu frá starfsfólki þessarar stofnunar fyrir að hafa ekki sætt mig við það sem ég kalla embættisbrot starfsmanna stofnunarinnar. Það sama verð ég að segja um ráðherra málaflokksins sem í mínum huga er einnig rúin trausti. Svandís Svavarsdóttir hefur ekki á neinum tímapunkti svarað formlegum fyrirspurnum frá mér og ég veit að það sama á við um einhverja fjölmiðla sem reynt hafa að spyrjast fyrir um málið. Aðstoðarmaður ráðherra hringdi reyndar einu sinni í mig í haust. Vafalaust er hann ágætur drengur, en hann hafði hreinlega ekkert að segja, enda kom ekkert út úr því símtali,“ segir Steinunn.
Borgarbyggð stóð í lappirnar
Af stjórnmálamönnum segir Steinunn að Inga Sæland formaður Flokks fólksins hafi verið sú eina sem tekið hafi málið upp á Alþingi, aðrir hafi látið það afskiptalaust. Þó sér Steinunn ljósan punkt í málinu að sveitarfélagið Borgarbyggð hafi stutt dyggilega við bakið á henni í þessari baráttu allri, en það sé e.t.v. galli að sveitarfélög hafa enga lagalega aðkomu að dýravelferðarmálum eftir að núgildandi lög um Matvælastofnun voru samþykkt. „Sigrún Ólafsdóttir, formaður landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar, hefur staðið vaktina með sóma. Hún er bóndi sem tekur málið upp á sína arma vegna þess að hún lítur á það sem skyldu sína að taka stöðu með bændastéttinni. Mál af þessum toga séu skaðleg stéttinni í heild. Sem betur fer eru flestir bændur og skepnuhaldarar almennt að standa sig vel og standa undir þeirri ábyrgð að halda skepnur. Í tvígang lét Sigrún, sem formaður landbúnaðarnefndar, kalla forstjóra MAST og yfirdýralækni á fund í Borgarnesi. Þar voru þessar konur látnar svara til um viðbrögð, eða öllu heldur viðbragðsleysi, stofnunarinnar og í bæði skiptin samþykkti sveitarfélagið harðorðar ályktanir í kjölfarið. Þær ályktanir gáfu málinu vigt í umræðunni, ekki síður en aðkoma ríkisendurskoðanda að því.“
Frumkvæðisúttekt ríkisendurskoðanda
Steinunn kveðst fagna því frumkvæði sem Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi hafi sýnt í málinu. „Hann hafði í sumar samband við mig strax eftir að hafa heyrt af málinu í fjölmiðlum og þeim skorti á viðbrögðum sem Matvælastofnun virtist hafa sýnt. Hann sagðist hafa ákveðið í kjölfar þessa tiltekna máls að gera stjórnsýsluúttekt á stofnuninni að eigin frumkvæði. Málið hér í Borgarnesi hafi verið kveikjan að þeirri ákvörðun, var í raun kornið sem fyllti mælinn hjá honum.“
Ekki brugðist við
Steinunn rifjar upp málið: „Það var í lok ágúst sem ég vakti athygli á aðbúnaði hrossanna sem geymd voru í hesthúsi við hlið hesthússins okkar hér í Borgarnesi. En áður en ég gerði málið opinbert hafði ég margsinnis sent kvartanir og ábendingar, hringt og gert allt sem í mínu valdi stóð til að brugðist yrði við. Ég fékk hins vegar engin svör. Ég lít á að það hafi verið neyðarúrræði hjá mér að gera málið opinbert í gegnum samfélagsmiðla. Fjölmiðlar brugðust mjög skjótt við og í kjölfarið almenningur víðs vegar um landið. Öllum ofbauð þær lýsingar sem birtust, studdar myndum sem segja meira en þúsund orð. Allur seinni hluti sumarsins markaðist af þessu máli sem tengdist hrossunum, en síðan fóru að berast vísbendingar um að á ábyrgð þessa sama fólks væru einnig nautgripir og sauðfé sem bjuggu við afar slæman aðbúnað upp í Bæjarsveit og höfðu gert lengi; innilokaðar kindur og nautgripir. Viðbrögð kerfisins voru þó ekki snarpari en svo að það var fyrst 18. október sem 13 af þessum 39 hrossum sem voru í umsjón fólksins voru aflífuð og öðrum skilað til annars fólks, þar af ellefu hross í því sem kallað var viðkvæmt ástand.
Eftir árangurslausar tilraunir til að vekja kerfið síðastliðið sumar birti ég mynd þar sem lítið, horað og vanhirt tryppi stóð vanmáttugt úti í gerði við hesthúsið hér í Borgarnesi. Var þessi myndbirting mitt ákall til umheimsins um að eitthvað yrði að gert. Þrátt fyrir þessa mynd brást búfjáreftirlitið ekki við og ég fékk engin svör úr „kerfinu“. Við tók rússíbani þar sem ég skiptist á að senda eftirlitsaðilum, sem hefðu átt að sinna slíkum málum, við engar undirtektir - og birta myndir af gangi mála á Facebook. Það var svo fljótlega sem ríkisendurskoðandi gaf út tilkynningu að endurskoða þyrfti Matvælastofnun er varðar vinnu þeirra í dýravelferðarmálum. Þar með má segja að hjólin hafi verið farin að snúast.“
Almenningur tók stöðu með henni
Steinunn heldur áfram: „Fjölmargir aðilar fylgdu mér í þessu ferli. Ég fékk óteljandi hringingar og skilaboð víðs vegar af landinu og endalausa hvatningu. Hvert og eitt skipti máli og langar mig að koma á framfæri kærri þökk til alls þessa fólks fyrir að hvetja mig til að taka stöðu með dýrum sem bjuggu við óviðunandi aðbúnað. Það er staðreynd að þetta eru oft erfið mál og alltaf er einhvers konar mannlegur harmleikur hin raunverulega ástæða. Ég fylgdist áfram grannt með þessum dýrum eftir að þau voru loks sett út og fór að þekkja þau. Sá hvernig þau börðust fyrir lífi sínu þegar veðrin voru sem verst. Sumar nætur í haust þegar rigningar og kuldatíð brast á hrökk ég upp með andfælum á nóttunni þegar rigningin lamdi á þakinu hjá mér.“
Þá féllu tár
Steinunn segir að ótrúlega langur tími hafi því liðið, eða hátt í þrír mánuðir frá því hún fyrst lét vita af slæmum aðbúnaði dýranna og þar til brugðist var við. „Þriðjudaginn 18. október dró loks til tíðinda. Þá var farið í „aðgerðir“ hjá Matvælastofnun. Búið var að gera dýrin nógu horuð svo hægt væri að búfjárvörslusvipta eigendurna. Horuðu vesalingunum var smalað á sláturvagn. Litla brúna folaldið sem ég birti mynd af var aflífað á staðnum. Það var ömurlegt að sjá þessa litlu fótleggi í hjólbörunum. Þá féllu tár,“ viðurkennir Steinunn.
Hún segir að næst hafi tekið við barátta um að koma nautgripum á Nýja-Bæ í Bæjarsveit í sæmandi aðstæður. „Nautgripir þessir voru búnir að vera lokaðir inni árum saman. Baulið í þeim hélt oft vöku fyrir nágrönnum. Og annar hópur nautgripa að auki sem stóð grindhoraður úti í öllum veðrum, oft án vatns og fóðurs. Þriðjudaginn 15. nóvember hófust aðgerðir vegna nautgripanna. Sláturbílar í lögreglufylgd tæmdu húsin og baulið þagnaði.“ Steinunn segir að enn beri þann skugga á að þetta umrædda fólk er enn með hross undir höndum: „Undir „ekki eftirliti“ Matvælastofnunar mega þessir aðilar eiga hross,“ segir Steinunn. Sauðféð er hýst á bæ ekki langt frá og kveðst Steinunn ekki vita hversu vel því reiði af þar.
Margir hafa samband
Þrátt fyrir að nú séu liðnar nokkrar vikur frá því að lyktir fengust í mál flestra þeirra dýra sem Steinunn tilkynnti til stofnunarinnar, þá sé hún enn að fá hringingar frá fólki alls staðar af landinu. „Þetta er undantekningarlaust fólk sem hefur haft áhyggjur af dýrum í umhverfi þess, tilkynnt til Matvælastofnunar, en ekki fengið viðbrögð. Nýlega fékk ég t.d. tilkynningu af Vestfjörðum. Ég hafði sjálf samband við eiganda þessara dýra. Sá er ekki sammála um stöðu mála á sínu búi. Því máli verður fylgt eftir. Þá get ég nefnt að í Dölum fékk bóndi dóm fyrir illa meðferð á dýrum, en hvað var gert? Maki viðkomandi, sem vissi um ástandið, er með umráð yfir dýrunum. Ég vil benda á að áfram er það samfélagsleg skylda allra nágranna og sveitunga að láta vita ef fólk telur að einhverju sé ábótavant í aðbúnaði dýra. Lögin eru afdráttarlaus hvað það snertir.
Ég lít fyrst og fremst á þessa tilnefningu þannig að dýravelferðarmál eru ofarlega í huga fólks. Það þurfti öll þessi læti út af einu tilteknu máli, til að vekja umræðuna til lífs. Vekja fólk til vitneskju um að dýraverndarlög eru skýr. Almenningur fer eftir lögunum, en ráðherra málaflokksins og Matvælastofnun eru að bregðast.“
„Gangi þér vel!“
Steinunn dregur ekki dul á að allt sem tengist þessu máli hafi tekið á hana sem einstakling og verið erfitt. „Ég var alltaf að hugsa um dýrin og velferð þeirra. Í haust þegar verstu veðrin gengu yfir voru þessi vesalings hross úti í skjólleysi og þröngum haga á þeim tíma sem þau vissulega hefðu þurft að vera að bæta á sig fyrir veturinn. Að vakna upp við veðrið með andfælum um miðjar nætur tók mjög á. Það var því léttir þegar kerfið brást loksins við og dýrin hættu að þjást.“
Aðspurð segist hún hafa náð að sinna starfi sínu, en þó með herkjum, í haust. „Ég tók mér eins dags frí frá tónlistarkennslunni. Tilkynnti að ég mætti ekki þann dag og hefði enga afsökun fram að færa! Fékk strax svar frá skólanum þar sem sagði einfaldlega: „Gangi þér vel!“ Skólinn studdi mig og sannarlega líka einstaka nemendur sem ræddu við mig um horaðar skepnur! Þannig get ég sagt að allir hafi stutt mig í þessu máli hér í mínu nánasta umhverfi.“ Hún segist hafa farið til Spánar í vikufrí í ágúst og meðvitað reynt á meðan dvölinni ytra stóð að leggja mál þetta til hliðar í huganum. „Kvöldið sem ég kom heim fór ég samt rakleiðis upp í hesthús og sá að ekkert hafði breyst. Þá um kvöldið 16. ágúst hringdi ég í lögregluna og kærði aðbúnað ,,litla brúna folaldsins“ sem ég sá í þeirri heimsókn.“
Að lokum segir hún: „Ég vona svo sannarlega að árið 2023 sjáum við Íslendingar raunverulega breytingu til batnaðar á úrvinnslu erfiðra mála sem snerta velferð dýra í fallega landinu okkar. Við sem þjóð getum ekki látið þetta ganga svona áfram. Ég lít svo á að það eigi að taka jafn ákveðið á málum þar sem fólk er að fara illa með dýr og á öðrum viðurkenndum brotum í réttarríkinu. Við þekkjum hvernig tekið er á málum nauðgara, þjófa og þeirra sem aka undir áhrifum, svo ég taki dæmi. Ef útigangsmaður stelur lambalæri í búð er hann sannarlega tekinn til bæna, en ef fólk fer illa með skepnur fær það endalausa fresti og vandræðagangur kerfisins er beinlínis þrúgandi. Það er nánast klappað á bakið á dýraníðingnum og sagt; „haltu áfram“,“ segir Steinunn Árnadóttir Vestlendingur ársins 2022 að endingu.