Kjöri íþróttamanneskju Borgarfjarðar var lýst í Hjálmakletti í Borgarnesi síðdegis í gær, á þrettándanum. Hætt er að kjósa Íþróttamann hvers árs og nýtt heiti tekið upp. Að kjörinu standa Ungmennasamband Borgarfjarðar og Borgarbyggð. Ýmis verðlaun voru afhent, svo sem hvatningarverðlaun, verðlaun fyrir setu í landsliðum og fleiri. Þeim úrslitum verður nánar gerð skil í frétt Skessuhorns á næstu dögum. Mjög öflugur tíu manna hópur íþróttafólks hafði verið valinn að þessu sinni í tíu manna úrtakshóp. Til marks um styrkleika þeirra má nefna að heimsmethafi í kraftlyftingum hafnaði í þriðja sæti í kjörinu. Þá eru aldursreglur við valið með þeim hætti að fulltrúi hestamanna, sem hafði verið útnefndur af félagi sínu, reyndist ekki kjörgengur sökum þess að hafa ekki náð 14 ára aldri. Viðkomandi vann þó til allra helstu verðlauna sem í boði voru á landsvísu á síðasta ári.
Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2022 er Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona frá Laugalandi. Skömmu eftir að hún tók við verðlaunum sínum í Borgarnesi brunaði hún á Akranes þar sem hún var jafnframt kjörin Íþróttamaður Akraness, þriðja árið í röð. Í öðru sæti í Borgarfirði varð Bjarki Pétursson golfari og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir kraftlyfingakona varð þriðja. Helgi Guðjónsson knattspyrnumaður varð fjórði og í fimmta sæti Bjarni Guðmann Jónsson körfuknattleiksmaður.