Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir árið 2022 hafa verið á margan hátt eftirminnilegt. „Það sem stendur upp úr frá liðnu ári er sú sókn sem Akranes er í sem sveitarfélag í uppbyggingu atvinnu, í fjölgun íbúa og í eigin uppbyggingu s.s. íþróttamannvirkja, skólahúsnæðis og húsnæðis fyrir fatlaða, sem og stórhuga áform um uppbyggingu fyrir frístundastarf barna og hæfingar- og vinnustað fatlaðra.
Atvinnuástandið er virkilega gott á Akranesi, rekstur sveitarfélagsins góður með jákvæðri rekstrarniðurstöðu og skuldir lækka enn eitt árið. Ný bæjarstjórn tók við góðu búi frá fráfarandi bæjarstjórn og hefur sett skýrar áherslur. Áfram er álagsprósenta fasteignaskatta lækkuð og þrátt fyrir háa verðbólgu eru leikskólagjöld óbreytt sem og gjaldskrá félagslegrar heimaþjónustu. Niðurgreiðsla til foreldra barna hjá dagforeldrum hefur hækkað og hækkar enn meira til þeirra sem eiga börn á leikskólaaldri. Jafnframt er búið að bæta við frístundastrætó fyrir íþróttaæfingar sem kemur til viðbótar við frían innanbæjar strætó og nemendur í 9. og 10. bekk hafa fengið fartölvur.“ Þá nefnir Sævar að uppbygging grænna iðngarða í Flóahverfi sé komin vel í gang og að Breið nýsköpunarmiðstöð hafi laðað til sín ýmsa frumkvöðla.
„Hjá Breið þróunarfélagi erum við með stórhuga áform um uppbyggingu. Hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðisins kláraðist og verður nú unnið að útfærslu á deiliskipulagi með hliðsjón af vinningstillögunni, en nokkuð er þó í að uppbygging hefjist,“ segir Sævar en einnig var unnið markvisst að þróun atvinnutækifæra hjá Þróunarfélaginu á Grundartanga.
„Árið var ekki síður eftirminnilegt þar sem við fögnuðum 80 ára afmæli kaupstaðarins með margvíslegum hætti s.s. afmælisköku til starfsmanna, 80 ára Akurnesingum var boðið í afmæliskaffi og afhent gjöf, hátíðarfundi bæjarstjórnar, stofnun listakaupasjóðs, ljósmyndasýningu í miðbænum, afmælisköku á torginu á 17. júní, veglegri dagskrá í viðburðum, uppbyggingu skautasvells og glæsilegum vegglistaverkum víða um bæ. Það var svo ánægjulegt að enda afmælisárið með opinberri heimsókn Forseta Íslands sem kynnti sér frábært starf margra stofnanna okkar og fyrirtækja í bænum.“
Aðspurður um helstu verkefni og áskoranir sveitarfélagsins segir Sævar Freyr að raka-, loftgæða- og mygluvandamál hafi haft töluverð áhrif á stofnanir bæjarins. „Við erum að mæta því með mikilli uppbyggingu og ráðumst á sama tíma í framkvæmdir til að styðja við stækkun bæjarins og fjölgun íbúa. Má þar nefna gatnagerð, nýtt íþróttahús við Jaðarsbakka, endurbyggingu og stækkun Grundaskóla, endurbætur Brekkubæjarskóla og mætti svo lengi telja. Fyrirhuguð er hönnun og uppbygging Samfélagsmiðstöðvar fyrir Fjöliðju, frístundastarf barna og starfsendurhæfingu. Þessi mikla uppbygging kallar á verulegar fjárfestingar og er lántaka fyrirhuguð vegna þessa og skiptir miklu máli að undirliggjandi rekstur verði enn betri til að styðja við hærri rekstarkostnað og vaxtakostnað. Við viljum áfram tryggja rekstrarhagnað eins og verið hefur síðustu tíu ár á Akranesi en það er mikilvægt fyrir íbúa að svo sé og er ekki sjálfsagt eins og sést á rekstri margra sveitarfélaga.“
Þá segir Sævar Freyr það einnig vera áskorun að kunna að nýta þau tækifæri sem eru fyrir framan okkur. Þar nefnir hann áhuga á uppbyggingu hótels, baðlóns, heilsulindar og íþróttamannvirkja við Jaðarsbakka. „Það er gríðarlega mikill áhugi á uppbyggingu og fjárfestingum á Akranesi og margt í pípunum sem verður kynnt næstu vikur og mánuði. Við erum því að byggja upp töluverða innviði, bæði leikskóla, grunnskóla, frístundastarf og fyrir íbúa almennt til þess að gera gott samfélag enn betra.“
Sævar segir að árið 2023 leggist gríðarlega vel í hann. „Við erum í mikilli sókn og spennandi verkefni fram undan. Samhentur hópur stjórnenda og starfsmanna Akraneskaupstaðar leggur sig fram við að veita íbúum góða þjónustu og er markmiðið að efla okkur þar og gera enn betur. Sem dæmi stígum við markviss skref áfram í að efla stafræna þjónustu sem og leiðir til að sjálfvirknivæða ferla hjá okkur. Persónulega er ég afar spenntur fyrir að fá nýtt hlutverk sem afi á árinu en dóttir mín á von á stúlku og sonur minn á von á dreng á árinu. Þó liðið ár hafi verið á margan hátt gjöfult þá var það einnig erfitt en móðurmissir og að missa góðan vin reyndi verulega á. Það er ekkert betra en barnalán til að takast á við slíkt og sjá björtu hliðarnar á lífinu. Að lokum óska ég íbúum Akraness og öllum landsmönnum gæfu, gleði og friðar á árinu,“ segir Sævar Freyr Þráinsson að lokum.