Jón Eiríkur Einarsson, oddviti Skorradalshrepps, segir einkum þrennt standa upp úr á liðnu ári. „Í fyrsta lagi að vera kosinn í sveitarstjórn og vera með því treyst fyrir því að reka sveitarfélagið ásamt fjórum öðrum góðum sveitungum mínum. Í öðru lagi að taka við starfi oddvita sem hefur verið bæði skemmtilegt og krefjandi. Og í þriðja lagi stendur upp úr vígsla nýs Hreppslaugarhúss sem Ungmennafélagið Íslendingur reisti með fjárhagslegum stuðningi hreppsins. Það var fallegur og skemmtilegur dagur þar sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heiðraði okkur með nærveru sinni og tók rúnt um Skorradalinn. Í lokin má geta þess að Skorradalshreppur lauk við þjónustusamning við nágranna okkar í Borgarbyggð um þá þjónustu sem við kaupum af þeim. Þetta var mál sem virkilega var þörf á að klára og var það því mikill léttir þegar því var lokið,“ segir Jón.
Aðspurður um stærstu verkefni og áskoranir Skorrahaldshrepps á nýju ári segir Jón það verða að reka sveitarfélagið í sátt við íbúa og sumarhúsaeigendur. „Það er að feta veginn í og reyna að þjónusta alla eins og kostur er. Þó með það að markmiði að reisa sér ekki hurðarás um öxl. Einnig er það áskorun að huga að sorpmálum þannig að við náum markmiðum um hringrásarhagkerfi, sbr. lögin sem tóku gildi nú um áramót.“ En hvernig leggst árið 2023 í Jón Eirík Einarsson? „Árið leggst að sjálfsögðu vel í mig. Ég held að Skorradalurinn eigi eftir að blómstra sem aldrei fyrr ásamt Vesturlandi öllu. Að endingu óska ég öllum gleðilegs árs og ber þá von í brjósti að nýtt ár færi okkur birtu og yl og sérstaklega sól í sinni,“ segir Jón Eiríkur að lokum.