
„Höldum áfram að skapa eftirsóknarvert umhverfi“
Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar segir liðið ár hafa verið viðburðurðaríkt í starfsemi sveitarfélagsins Stykkishólmsbæjar og Helgafellsveitar. „Það er óhætt að segja að það sem hæst bar á árinu í starfsemi sveitarfélagsins var stofnun þess með sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar en í upphafi árs lagði samstarfsnefnd um sameininguna fram álit sitt um sameiningu þessara sveitarfélaga til umræðna í sveitarstjórnum beggja sveitarfélaganna. Þá fór fram íbúakosning um sameininguna í báðum sveitarfélögum laugardaginn 26. mars 2022 og var sameiningin samþykkt með afgerandi hætti af íbúum beggja sveitarfélaga og var ný bæjarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi kjörin 14. maí 2022. Var þessi afgerandi niðurstaða sannarlega ánægjuleg fyrir mig persónulega þar sameiningarferlið hófst upphaflega með óformlegum samtölum mínum við þáverandi oddvita Helgafellssveitar og í framhaldinu var mér falið af báðum sveitarstjórnum að leiða þessar farsælu sameiningarviðræður sem formaður samstarfsnefndar um sameininguna,“ segir Jakob.