Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar segir liðið ár hafa verið viðburðurðaríkt í starfsemi sveitarfélagsins Stykkishólmsbæjar og Helgafellsveitar. „Það er óhætt að segja að það sem hæst bar á árinu í starfsemi sveitarfélagsins var stofnun þess með sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar en í upphafi árs lagði samstarfsnefnd um sameininguna fram álit sitt um sameiningu þessara sveitarfélaga til umræðna í sveitarstjórnum beggja sveitarfélaganna. Þá fór fram íbúakosning um sameininguna í báðum sveitarfélögum laugardaginn 26. mars 2022 og var sameiningin samþykkt með afgerandi hætti af íbúum beggja sveitarfélaga og var ný bæjarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi kjörin 14. maí 2022. Var þessi afgerandi niðurstaða sannarlega ánægjuleg fyrir mig persónulega þar sameiningarferlið hófst upphaflega með óformlegum samtölum mínum við þáverandi oddvita Helgafellssveitar og í framhaldinu var mér falið af báðum sveitarstjórnum að leiða þessar farsælu sameiningarviðræður sem formaður samstarfsnefndar um sameininguna,“ segir Jakob.
„Það er einnig ánægjulegt að íbúar í sameinuðu sveitarfélagi Stykkishólms og Helgafellssveitar voru undir lok árs orðnir 1.308 og hafði fjölgað á tveimur árum um 46.“ Á árinu var lokið við viðbyggingu Leikskólans í Stykkishólmi og jafnframt voru gerðar breytingar á húsnæði grunnskólans til að mæta betur þörfum skólans. Sem lið í þessari þróun tóku gildi á árinu breytingar á deiliskipulagi í Víkurhverfi með það að markmiði að stuðla að betri landnýtingu með fjölgun lóða á miðsvæði hverfisins og auka fjölbreytileika íbúðarkosta í Stykkishólmi.
Jakob segir eftirtektarvert við árið 2022 að mikil gerjun var í atvinnulífinu í sveitarfélaginu, það sé greinilegur sóknarhugur í fólki og fyrirtækjum á svæðinu. „Sem lið í því að styðja við fólk og fyrirtæki gerði sveitarfélagið í upphafi árs samkomulag við Matís um uppbyggingu samstarfs í sveitarfélaginu með áherslu á fræðslu, nýsköpun, rannsóknir og atvinnuuppbyggingu innan sveitarfélagsins.“ Þá voru einnig lagðar mikilvægar línur um framtíð uppbyggingar á Súgandisey með nýju deiliskipulagi sem tekur til Súgandiseyjar, en meginmarkmið skipulagsins var tvíþætt; annars vegar að skapa ramma utan um svæði fyrir útivistarfólk til göngu– og náttúruupplifunar og hins vegar að tryggja öryggi sjófarenda með sjótengdum mannvirkjum. Verkefnið hlaut styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða en sl. vor fékk sveitarfélagið jafnframt úthlutað hátt í 20 millj. kr. styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna verkefnisins „Klofið við Stöngina“ á Súgandisey. „Í þessum styrkjum felst mikil viðurkenning á stefnu og framtíðaráformum sveitarfélagsins og stuðningi þess við ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Jakob.
Nefnir hann einnig að nokkur áherslumál sveitarfélagsins gagnvart ríkinu hafi þokast áfram. „Í fyrsta lagi hófust framkvæmdir í mars 2022 við umfangsmikla uppbyggingu á Skógarstrandavegi sem felur í sér að mestu byggingu tveggja brúa, yfir Skraumu og Dunká, ásamt endurbyggingu 5,4 km. vegarkafla. Með þessum áfanga er óhætt að segja að töluvert hafi þokast í rétta átt hvað varðar uppbyggingu Skógarstrandarvegar en betur má ef duga skal. Í öðru lagi hefur um langt skeið verið lögð þung áhersla á að annað skip hefji siglingar yfir Breiðafjörð. Var því afar ánægjulegt þegar innviðaráðherra féllst á óskir okkar haustið 2022 um að hefja formlegt ferli við að fá hingað nýja ferju til siglingar. Í þriðja lagi var í upphafi árs 2022 skrifað undir samkomulag sveitarfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins um yfirfærslu á rekstri hjúkrunarrýma Dvalarheimilisins í Stykkishólmi til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem tók við rekstrinum 1. júní 2022. Rekstur þeirra hefur frá þeim tíma verið í húsnæði sveitarfélagsins að Skólastíg 14 uns flutt verður í nýtt 18 íbúa hjúkrunarheimili að Austurgötu 7 í Stykkishólmi sem sveitarfélagið og heilbrigðisráðuneytið hafa unnið að uppbyggingu að. Mun hið nýja heimili vera hið glæsilegasta með sameiginlegum matsölum fyrir íbúa og setustofum, ásamt starfsmannaaðstöðu og tilheyrandi stoðrýmum á tveimur hæðum.“
Aðspurður um hver séu stærstu verkefni og áskoranir sveitarfélagsins segir Jakob mörg verkefni vera í farvatninu. „Við gerum t.d. ráð fyrir að hefja uppbyggingu á nýju hverfi, Víkurhverfi, á grunni nýsamþykktra breytinga á deiliskipulagi hverfisins. Þar er gert ráð fyrir 30-40 fjölbreyttum íbúðarkostum í nýjum götum og að úthlutun lóða á svæðinu hefjist seinna á þessu ári. Þá stendur til að efla til muna þjónustu við eldra fólk í sveitarfélaginu með stofnun nýrrar Miðstöðvar öldrunarþjónustu á árinu 2023, en með stofnun þessarar miðstöðvar er fyrsta skrefið tekið í átt að markvissri vinnu við að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu eldra fólks í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að starfsemin hefjist á sama tíma og lokið verður við flutning hjúkrunarrýma frá Dvalarheimilinu í Stykkishólmi við Skólastíg 14 yfir á nýtt glæsilegt heimili við Austurgötu 7 sem verið er að byggja sem jafnframt koma til með að bæta enn frekar þjónustu við eldra fólk í sveitarfélaginu.“ Þá verður áfram unnið að breytingum á aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 og tveimur nýjum deiliskipulögum fyrir athafnarsvæði. „Á öðru svæðinu verður lögð sérstök áhersla á svæðisbundna styrkleika svæðisins til aukinnar atvinnusköpunar og sjávarútvegstengdan iðnað og nýsköpun á því sviði, m.a. sjálfbæra nýtingu sjávarfangs og annarra auðlinda í og við Breiðafjörð. Hvað varðar áherslur bæjarstjórnar fyrir árið 2023 eru þær að skapa áfram eftirsóknarvert umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki og standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins.“
En hvernig leggst árið í Jakob Björgvin Jakobsson? „Árið leggst afar vel í mig og er mér efst í huga þakklæti, stolt og bjartsýni enda margt sem hefur áunnist á síðustu árum og enn fleiri verkefni og áskoranir framundan sem gaman verður að takast á við. Ég hlakka til fyrirliggjandi verkefna með mínu góða samstarfsfólki, er þakklátur fyrir góða líkamlega heilsu og ágætt vinnuþrek, enda hef ég ómælda ánægju af því að starfa fyrir sveitarfélagið,“ segir Jakob að lokum.