2. október 2021
Skessuhorn - Fréttaveita Vesturlands

Fréttaveita Vesturlands

StyrkjaGerast áskrifandi
StyrkjaGerast áskrifandi
  • Fréttir
  • Veröld
  • Aðsendar greinar
  • Viðburðir
  • Nýjasta blaðið
Fréttir06.01.2023 12:58
Holtsflöt 6 á Akranesi. Ljósm. mm.

Flóttafólk á vegum Hafnarfjarðarbæjar sent á Akranes

08.02.2023 09:01

Afmælisblað í stóru upplagi í næstu viku

Lesa meira

08.02.2023 08:02

Lífið er núna dagurinn á morgun, 9. febrúar

Lesa meira

08.02.2023 06:01

Segir ömurlegt að þurfa að ströggla við að leita réttar síns

Lesa meira

07.02.2023 15:38

Sigrún fórnar hárinu síðdegis á morgun safnist milljón

Lesa meira

07.02.2023 15:02

Þóra Arnórsdóttir til Landsvirkjunar

Lesa meira

07.02.2023 14:04

Níu manna sérfræðihópur til hjálparstarfs í Tyrklandi

Lesa meira

Hleð...
Skessuhorn - Fréttaveita Vesturlands
Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 Garðabraut 2a 300 Akranes Sími 433 5500 Ritstjórn: skessuhorn@skessuhorn.is
  • Senda inn efni
  • Nýburar
  • Auglýsingar
  • Starfsfólk
  • Fyrirtækið
  • Nýjasta blaðið
Facebook
Instagram
Twitter
LinkedIn

© 2017–2023 Allur réttur áskilinn Skessuhorn.

Frá því í apríl á síðasta ári hefur flóttafólki og hælisleitendum tekið að fjölga til muna hér á landi, einkum í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Árið reyndist það langstærsta í móttöku flóttafólks. Á Akranes kom fyrsta flóttafólkið frá Úkraínu 29. apríl í fyrravor. Á síðasta ári öllu fluttu alls 80 einstaklingar í bæjarfélagið, þar af 30 börn. Akraneskaupstaður nýtur stuðnings til tveggja ára frá ríkinu fyrir hluta þessa hóps, í þeim tilfellum sem aðstæður kalla á sértæka aðstoð eða þjónustu. Hins vegar komust margir þessara nýbúa í sveitarfélaginu strax í vinnu og eru þannig virkir á vinnumarkaðnum. Þar hefur hjálpað að skortur hefur verið á vinnuafli á Akranesi og næg verkefni fyrir vinnufúsar hendur.

„Það hefur almennt gengið vel hjá flóttafólki sem hingað hefur komið að aðlagast og taka flestir virkan þátt í samfélaginu. Margir eru því komnir í vinnu og börnin eru í skólunum okkar. Fólk hefur fengið vinnu hjá byggingafyrirtækjum, verslunum, á sjúkrahúsinu, bókasafninu og víðar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. Hann upplýsir jafnframt að langflest af því flóttafólki sem hingað kom á síðasta ári hafi verið frá Úkraínu, en einnig einstaklingar frá Sýrlandi, Afganistan, Venesúela, Sómalíu, Írak og Palestínu.

Í gær fjölgaði flóttafólki á Akranesi óvænt, en þá var flutt inn í fimm íbúðir í fjölbýlishúsinu við Holtsflöt 6, íbúðir sem eru í eigu Byggingafélagsins Dalsbrautar ehf. Höfðu tíu íbúðir í eigu fyrirtækisins staðið auðar í húsinu. Með milligöngu Hafnarfjarðarbæjar gerði Dalsbraut nýverið samning við væntanlega leigjendur fimm íbúða. „Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Reykjavík eru öll móttökusveitarfélög fyrir flóttafólk samkvæmt samningi við ríkið. Þessi sveitarfélög hafa það hlutverk að útvega húsnæði fyrir flóttafólk sem hingað kemur og taka á leigu íbúðir hvort heldur sem er innan eigin sveitarfélaga, eða annarsstaðar. Akraneskaupstaður hefur ekki haft beina aðkomu að þessu tiltekna máli, en við fengum tilkynningu um það frá eiganda íbúðanna í Holtsflöt 6 fyrir tveimur dögum að búið væri að leigja þær til flóttafólks á vegum Hafnarfjarðarbæjar,“ sagði Sævar Freyr þegar blaðamaður hafði samband við hann í morgun. Fólkið er ekki frá Úkraínu. Staðfest tala um fjölda fólks liggur ekki fyrir en íbúðir í fjölbýlishúsinu Holtsflöt 6 eru ýmist 110 eða 125 fermetrar og því gæti fjöldinn hæglega verið 25-30 manns.

Sævar gat þess að endingu að fljótlega verði auglýst staða verkefnisstjóra með móttöku flóttafólks á Akranesi, en ríkið styrkir þá ráðningu.