Alls var fjölgun um ríflega tólf hundruð gesti á milli áranna 2021 og 2022 í Safnahús Borgarfjarðar í Borgarnesi. Um var að ræða einstaklinga sem áttu erindi inn á safnið ýmist til þess að glugga í blöð, fá lánaðar bækur og tölvuaðgang eða nýta lærdómsaðstöðuna. Viðburðir voru einnig vel sóttir á árinu sem var að líða og þá voru foreldramorgnar sérstaklega vinsælir, bókasafnsviðburðir af ýmsu toga og svo aðventuskemmtanir.
Fram kemur á heimasíðu Borgarbyggðar að starfsáætlunin fyrir Safnahús Borgarfjarðar árið 2023 sé viðburðarík en áætlað er að halda áfram að setja upp skemmtilegar sýningar í Hallsteinssalnum. Auk þess er á dagskrá að auka við námskeið, ritsmiðjur og fyrirlestra. Myndamorgnar verða á sínum stað auk foreldramorgna.
Sýning á verkum Matthíasar Margrétarsonar sem sett var upp í haust á veggjum bókasafnsins, verður tekin niður í janúar. Síðasti dagur sýningarinnar er föstudagurinn 13. janúar næstkomandi. Þann sama dag er einnig síðasti sýningardagur á málverkasýningu Guðlaugs Bjarnasonar; Gaumstol og gúgur til fjalla, sem hefur verið Í Hallsteinssal. Því fer hver að verða síðastur að koma og berja augum þessar áhugaverðu sýningar.