Fréttir
Hér er nýja Þjóðgarðsmiðstöðin sem staðsett er á Hellissandi og en framkvæmdir við hana voru kláraðar á haustmánuðum. Ljósm. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Árið var um margt eftirminnilegt

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, segir árið 2022 hafa verið um margt eftirminnilegt. „Sú staðreynd að við fengum frelsið okkar aftur eftir að hafa verið í COVID-19 glímu síðustu tvö ár er að mínu matið það jákvæðasta við liðið ár. Eðlileg samskipti og samvera fólks er nærandi og okkur öllum mikilvæg. Þó við gerum okkur grein fyrir að veiran er ekki farin og að enn er mikilvægt að fara varlega þá erum við samt frelsinu fegin.“ Þá segir Kristinn það óvæntasta og neikvæðasta á liðnu ári vera stríðið sem nú geisar í Evrópu eftir innrás Rússlands í Úkraínu. „Saga stríða og þeirra hörmunga sem þau skapa er skelfileg og það er hálf óraunverulegt að fylgjast með fréttum af slíku í Evrópu í nútímanum. Það að fólk hafi ekki aðgang að vatni, ljósi eða hita í miklum kulda er hræðilegt og afar dapurt að mikið kapp sé lagt í að eyðileggja innviði landsins svo ekki sé nú talað um alla þá sem hafa látist í þessum hörmungum.“ Þá var ein skrítnasta upplifunin á árinu stuldurinn á styttunni af Guðríði Þorbjarnadóttur sem stendur við Laugabrekku á Hellnum. Ein mestu vonbrigði ársins segir Kristinn vera lokun útibús Hafró í Ólafsvík nú um áramót. „Bæjarstjórn fundaði með forstjóra Hafró, alþingismönnum, ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins en allt kom fyrir ekki og Hafró skellti í lás á gamlársdag. Það er óþolandi að þurfa að sætta sig við þetta, sérstaklega í ljósi þess að í tali er verið að leggja áherslu á að fjölga opinberum störfum úti á landi en því miður fer ekki alltaf saman hljóð og mynd hvað þetta varðar.“

Árið var um margt eftirminnilegt - Skessuhorn