Í gær komu tveir „gamlir“ nemendur Grundaskóla á Akranesi í heimsókn í skólann og ræddu við nemendur og kennara. Hér voru á ferð Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson en þeir eru báðir atvinnuknattspyrnumenn hjá FC Köbenhavn í Danmörku. Þeir félagar héldu skemmtilegan fyrirlestur á sal, ræddu við nemendur um líf sitt sem atvinnumenn í knattspyrnu og um mikilvægi þess að standa sig sem einstaklingar og að gera ávallt sitt besta. Að þeirra sögn næst árangur ekki nema að vera góður vinur, koma vel fram við aðra, stunda nám og starf af metnaði og vera heiðarlegur. Einnig er mikilvægt að borða holla fæðu, sofa vel og hugsa jákvætt.
Fram kemur á vef Grundaskóla að Ísak og Hákon hefðu rætt við nemendur í ólíkum bekkjum um allt á milli himins og jarðar og fóru síðan út á fótboltavöll og stýrðu leikjum í frímínútum. Einnig færðu þeir skólanum sínum að gjöf áritaðar landsliðstreyjur með þökk fyrir samfylgd og góðan tíma.
„Hér eru sannar fyrirmyndir á ferð sem vildu miðla af reynslu sinni til þeirra sem yngri eru og styðja öflugt skólastarf í Grundaskóla. Nemendur og starfsmenn þakka þeim félögum fyrir óvænta en afar ánægjulega heimsókn.“ segir í fréttinni á grundaskoli.is.