Lögreglunni á Vesturlandi barst útkall vegna bílslyss klukkan 15:43 í gær. Þá höfðu lent saman fólksbíll og vörubifreið á Akrafjallsvegi neðan við bæinn Vestri-Reyni. Fjölmennt lið björgunarfólks var sent á vettvang en talið var í fyrstu að um alvarlegt slys væri að ræða. Betur fór þó en á horfðist. Að sögn Ásmundar Kristins Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi, rákust saman fólksbíll og vörubíll úr gagnstæðri átt. Einungis ökumenn voru í bílunum og hlutu þeir minniháttar meiðsli, gengu sjálfir út úr sínum bílum og inn í sjúkrabifreið. Þeir voru fluttir á bráðamóttökuna á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi til aðhlynningar.
Slökkvilið Akraness hreinsaði vettvanginn en fólksbíllinn var með öllu óökufær eftir áreksturinn. Rannsóknadeild Lögreglunnar á Vesturlandi mætti á staðinn. Vettvangurinn var myndaður og er málið til rannsóknar.